Þingfundi var slitið nú á níunda tímanum í morgun, en þá hafði umræða um þriðja orkupakkann staðið í 19 klukkustundir, en þingfundur hófst klukkan 13.30 í gær. Umræðunni er þó ekki lokið því er hlé var gert á klukkan 8.41 í morgun voru enn sex þingmenn á mælendaskrá, m.a. Miðflokksþingmennirnir Birgir Þórarinsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Karl Gauti Hjaltason og Þorsteinn Sæmundsson.
Lengst af fram eftir nóttu tóku aðeins þingmenn Miðflokksins til máls og skiptust þeir m.a. á að að flytja ræður og andsvör síðustu klukkutímana. Meðal annars var lesið upp úr álitum sem einstaklingar hafa sent inn varðandi málið og þá las Ólafur Ísleifsson upp Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins frá 11. maí skömmu fyrir klukkan sjö í morgun.
Þingfundur hefst svo á ný klukkan 15 síðdegis, en dagskrá hans liggur ekki fyrir.