Skuldir flugrekenda við Isavia eru ekki flokkaðar eftir loftförum. Það þýðir að Isavia getur ekki sagt nákvæmlega hver skuld hverrar og einnar flugvélar er við félagið, heldur þyrfti matsgerð til að finna út úr því. Þetta kom fram í máli Gríms Sigurðssonar, lögmanns Isavia, í munnlegum málflutningi í aðfararbeiðnamáli ALC gegn Isavia vegna kyrrsetningar TF-GPA. Um er að ræða annað slíka málið sem ALC höfðar fyrir dómstólum vegna málsins.
Lögmaður ALC hafði í ræðu sinni sagt að Isavia hefði ekki viljað gefa upp hver skuld TF-GPA væri við Isavia, en ALC hefur millifært 87 milljónir til Isavia sem félagið telur að sé skuld vélarinnar. Isavia telur hins vegar að kyrrsetning vélarinnar nái til allra skulda WOW air vegna samtals sjö flugvéla sem ALC átti og WOW air var með í rekstri.
Í málflutningi sínum hafnaði Grímur útreikningum ALC og sagði ekki hægt að notast við einhliða útreikning félagsins, það sem nákvæm upphæð skuldarinnar lægi ekki fyrir og myndi ekki gera það nema með matsgerð fyrir dómi. Ástríður Grímsdóttir, dómari málsins, stoppaði Grím í miðjum málflutningi sínum og spurði hann hvernig Isavia ætlaði að innheimta skuldir ef félagið vissi ekki hvernig reikna ætti út gjöldin þannig að hægt væri að gefa út reikning.
Grímur svaraði því til að reikningar væru gefnir út fyrir ákveðið tímabil og ekki flokkað eftir loftförum. Sagði hann Isavia ekki að flokka hvað tengist ákveðnum loftförum og hvað tengist annarri þjónustu sem Isavia veiti, óháð fjölda loftfara. Þannig nefndi hann að einn liður í gjaldskrá Isavia væri aðstöðugjöld vegna aðstöðu fatlaðra í flugstöðinni. Ekki væri hægt að tengja slík gjöld við ákveðnar flugvélar, heldur færi það eftir fjölda farþega.
Í andsvörum Odds Ástráðssonar, lögmanns ALC, kom fram að félagið hefði ítrekað óskað eftir sundurliðun á gjöldum flugvélarinnar. Fyrst hafi verið orðið við því tveimur dögum fyrir málflutning fyrra málsins. Sagði hann að það hafi þó ekki verið í formi sundurliðaðs reiknings, heldur hafi gögnunum verið „data-dumpað“. Þannig hefði ALC fengið minnislykil með nokkrum tugum Excel-skjala sem hvert og eitt væri með mörg þúsund línur. Hins vegar kæmi fram í hverri línu hvaða flugvél gjaldaliðurinn tilheyrði. Því hafi lögmenn ALC unnið úr þessum gögnum og þannig fundið út 87 milljóna upphæðina.
„Þetta var sáttaboð frá okkur um að greiða gjöldin, en því var hafnað,“ sagði Oddur. Bætti hann við að Isavia væri fullljóst hvernig þessi tala væri tilkomin, en að nú væri talað um að fá dómskvadda matsmenn til að lesa bókhald Isavia til að finna út hversu mikið þyrfti að rukka. Sagði hann slíka hugmynd vera tóma þvælu.
Uppfært: Í upphaflegri frétt kom fram að Isavia gæti ekki flokkað skuldir flugrekenda við Isavia eftir loftförum. Grímur Sigurðsson, lögmaður Isavia, kom því á framfæri við mbl.is eftir að fréttin var birt að réttara væri að Isavia hefði ekki flokkað skuldirnar og gæti þar með ekki upplýst um nákvæma skuld einstaka loftfara. Fréttin hefur verið uppfærð samkvæmt því.