Borgirnar verði endurhannaðar

Borgarstjórar höfuðborga Norðurlandanna, þau Anna König Jerlmyr, Raymond Johansen,Frank Jensen, …
Borgarstjórar höfuðborga Norðurlandanna, þau Anna König Jerlmyr, Raymond Johansen,Frank Jensen, Anni Sinnemäki og Dagur B. Eggertsson á ráðstefnunni Framtíð borganna, sem stendur yfir í Ósló. mbl.is/Baldur

Borg­ar­stjór­ar höfuðborga á Norður­lönd­um boðuðu rót­tæk­ar aðgerðir í lofts­lags­mál­um í Ósló í gær. Þar fer fram alþjóðleg ráðstefna um sjálf­bærni borga en Ósló er um­hverf­is­höfuðborg Evr­ópu í ár.

Fjöl­menn sveit frá Reykja­vík sæk­ir ráðstefn­una, m.a. full­trú­ar úr sam­göngu- og skipu­lags­ráði og um­hverf­is- og heil­brigðisráði. Hafa þeir fundað með full­trú­um Ósló­ar.

Raymond Johan­sen, borg­ar­stjóri Ósló­ar, benti á að helm­ing­ur mann­kyns byggi nú í borg­um. Sam­einuðu þjóðirn­ar áætluðu að árið 2050 myndu 2,5 millj­arðar manna til viðbót­ar hafa flutt í borg­ir. Því væri til mik­ils að vinna í lofts­lags­mál­um að gera borg­ar­sam­fé­lög um­hverf­i­s­vænni. Raf­bíl­ar hefðu verið 70% seldra nýrra bíla í Nor­egi í apríl. Fjár­fest­ar sem hafi veðjað á lágt end­ur­sölu­verð notaðra raf­bíla hafi tapað fé. Borg­ar­yf­ir­völd í Ósló stefni að því að vera ein­göngu með raf­knúna strætóa fyr­ir 2020. Sú umbreyt­ing að færa bílaum­ferð úr miðborg Ósló­ar en skapa um leið rými fyr­ir gang­andi og hjólandi væri ekki sárs­auka­laus fyr­ir sum fyr­ir­tæk­in. Þá væru vegtoll­ar til að draga úr um­ferð mjög um­deild­ir í Nor­egi. Ekki síst meðal fólks utan borg­ar­inn­ar.

Minnkað um 58%

Anna König Jerl­myr, borg­ar­stjóri Stokk­hólms, sagði borg­ar­yf­ir­völd­um hafa tek­ist að minnka los­un gróður­húsaloft­teg­unda um 58% frá ár­inu 1990. Það væri mark­mið þeirra að árið 2030 mundi borg­ar­stjórn­in ekki leng­ur nota jarðefna­eldsneyti og svo öll borg­in árið 2040.

Frank Jen­sen, borg­ar­stjóri Kaup­manna­hafn­ar, sagði Kaup­manna­höfn nú vera eina líf­væn­leg­ustu borg heims­ins. Margt hefði því breyst frá ní­unda ára­tug síðustu ald­ar þegar borg­in hefði verið í niðurníðslu, meng­un verið vanda­mál og efna­hags­lífið í lægð. Borg­in hefði verið end­ur­hönnuð með þarf­ir fólks en ekki bíla í huga, sem birt­ist í fjöl­skyldu­vænni borg. Breytt­ar áhersl­ur í sam­göngu­mál­um hefðu skilað því að 62% borg­ar­búa notuðu dag­lega hjól til að kom­ast í skóla og vinnu. Það væri mark­miðið að árið 2025 yrði borg­in orðin kol­efn­is­hlut­laus.

Umbreyt­ing Reykja­vík­ur

Dag­ur B. Eggerts­son, borg­ar­stjóri Reykja­vík­ur, sagði bar­átt­una við lofts­lags­vand­ann ekki snú­ast fyrst og fremst um leiðir til orku­fram­leiðslu, held­ur væru skipu­lags­mál­in stærsta viðfangs­efnið í borg­un­um. Dag­ur rakti ár­ang­ur borg­ar­búa við að inn­leiða hita­veitu og hvernig raf­orkan er fram­leidd á end­ur­nýj­an­leg­an hátt á Íslandi. Verk væri að vinna í sam­göng­um og sorp­mál­um. Vegna ákv­arðana í skipu­lags­mál­um fyr­ir nokkr­um ára­tug­um væri borg­in mjög miðuð við þarf­ir bíla. Komið væri að því að taka nauðsyn­leg­ar en mögu­lega óvin­sæl­ar ákv­arðanir í skipu­lags­mál­um Reykja­vík­ur til að draga úr los­un gróður­húsaloft­teg­unda. Framund­an væru ár umbreyt­inga með vax­andi rót­tækni í loft­lags­mál­um.

Anni Sinnemäki, aðstoðar­borg­ar­stjóri sem fer með um­hverf­is­mál í Hels­inki, sagði borg­ar­búa nú fara 80% sinna ferða gang­andi eða hjólandi. Áformað væri að loka hvoru kola­orku­ver­inu um sig árin 2024 og 2029 og inn­leiða um­hverf­i­s­vænni orku­gjafa.

Jens Ulltveit-Moe, stofn­andi og for­stjóri Umoe, ræddi um fjár­fest­ing­ar sín­ar í um­hverf­i­s­vænni orku. Hann vitnaði í sam­tal við fyrr­ver­andi um­hverf­is­ráðherra Nor­egs, sem hann nafn­greindi ekki, sem teldi að mann­kynið væri að tapa bar­átt­unni gegn lofts­lags­breyt­ing­um.

Marg­ir keyra frá Leifs­stöð

Að ræðunum lokn­um bár­ust spurn­ing­ar úr sal. Meðal ann­ars var Dag­ur spurður hvernig bregðast ætti við upp­gangi ferðaþjón­ustu á Íslandi m.t.t. lofts­lags­mála. Hann sagði um 55% farþega í Leifs­stöð fara í bíla­leigu­bíla í stað þess að nota aðra sam­göngu­máta. Þetta þyrfti að skoða. Flugið yrði sá sam­göngu­máti þar sem síðast yrði hætt að nota olíu. Flugið yrði áfram mik­il­væg­ur þátt­ur í líf­inu, ekki síst á eyj­um í Norður-Atlants­hafi.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert