„Þetta er vösk sveit eins og menn sjá langar leiðir,“ segir Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, sem segir enga þreytu í hópnum vegna umræðunnar um þriðja orkupakkann sem hefur farið fram þrjár síðustu nætur.
„Það er enginn bilbugur á mér og ég finn ekki nokkurn bilbug á mínum félögum.“
Þriðji orkupakkinn er fyrsta mál á dagskrá á þingfundi sem hefst klukkan 15.30 í dag en alls eru málin nítján talsins. Þingfundurinn í gær stóð yfir í rúmar 19 klukkustundir.
Þingmenn Miðflokksins hafa verið gagnrýndir fyrir að tefja fyrir öðrum málum með málþófi en Ólafur segir þá eingöngu vera að reyna að tala fyrir því að mikilvægir þættir í málinu verði kannaðir miklu betur.
„Við leggjum áherslu á að það sé tekin upplýst ákvörðun í svona stóru og þýðingarmiklu máli,“ segir hann. „Við teljum að þetta mál sé þannig vaxið að það þurfi miklu meiri undirbúning. Það er fjölmörgum spurningum ósvarað.“
Að sögn Ólafs er Miðflokkurinn að reyna að fjalla um málið með málefnalegum hætti og telja þingmennirnir margt nýtt hafa komið fram. „Við liggjum yfir þessum skjölum öllum. Það er haugur af gögnum sem tengist þessu og við erum að fara í gegnum þetta,“ segir hann og vonast til að fleiri taki þátt í umræðunum.
Ólafur nefnir að allt hafi oltið á lagalegum fyrirvara varðandi þriðja orkupakkann en það hafi gufað upp þegar formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sagði 15. maí að enginn sérstakur skráður fyrirvari væri til staðar. „Ég var mjög undrandi því þetta var svar við spurningu frá mér. Málið hafði verið lagt upp með þessum hætti að það ylti allt á þessum lagalega fyrirvara. Það hefur staðið yfir leit að þessum lagalega fyrirvara síðan,“ greinir hann frá.
Einnig nefnir hann nauðsynlegt sé að skoða þriðja orkupakkann í samhengi við þann fjórða þannig að heildarsýn fáist.
Ólafur bendir sömuleiðis á álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirst og Stefáns Más Stefánssonar í fylgiskjali með þingsályktunartillögu utanríkisráðherra vegna orkupakkans. Þeir telji eftir að hafa skoðað málið verulegan vafa leika á því hvort þarna sé um að ræða árekstur við stjórnarskrána.