Vel á annað hundrað mál og fyrirspurnir bíða afgreiðslu vegna umræðunnar um þriðja orkupakkann á Alþingi þar sem Miðflokksmenn hafa verið fyrirferðarmestir.
Þetta segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna, og telur fjöldann vera í kringum 170. Hún nefnir að stór mál á borð við fjármálaáætlun, fiskeldi, heilbrigðisstefnu og viðbrögð við innflutningi á hráu kjöti þurfi að komast að.
Þinglok eru áætluð 5. júní og nefnir Bjarkey að fimm þingdagar séu eftir fyrir utan eldhúsdag á miðvikudaginn í næstu viku, sem hefur þó verið notaður að einhverju leyti sem þingfundadagur.
„Við verðum að sjá til hvernig verkast til og hvenær tappinn losnar,“ segir hún spurð hvort hún hafi áhyggjur af því að mál nái ekki í gegn.
Hvað varðar umræðuna á Alþingi sem hefur staðið yfir fram á nótt með Miðflokksmenn fremsta í flokki segir hún það einstakt að einn flokkur haldi þinginu í gíslingu. „Eins og við þekkjum í gegnum tíðina hefur verið málþóf. Þá hafa einhverjir flokkar skipt því á milli sín en þarna líður manni svolítið eins og maður sé á þingflokksfundi hjá Miðflokknum. Ég held að þetta hafi ekki gerst í sögunni að einn flokkur hafi haldið uppi málþófi í marga daga,“ greinir Bjarkey frá og kveðst ekki átta sig á því hvað er hægt að gera til að leysa stöðuna enda hafi Miðflokkurinn „ekki beinlínis óskað eftir neinu sérstöku“. Flokkurinn hafi viljað fresta málinu en það sé ekki í boði.
„Auðvitað vonar maður það sannarlega að menn sjái að sér. Að þetta er tapað mál og lýðræðið verður að fá að ráða. Það eru allir aðrir þingflokkar sem vilja hleypa málinu í atkvæðagreiðslu, meira að segja Flokkur fólksins sem er á móti því,“ segir og hún og reiknar með því að forseti Alþingis boði til fundar fljótlega til að reyna að leysa málið.
Birgir Ármannsson, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, bendir á að fjármálaáætlunin sé í enn í nefnd og því hefur staðan á Alþingi enn sem komið er ekki bein áhrif á vinnslu við hana. Hann segir að þegar jafnmikill tími fer í afgreiðslu eins máls og nú er raunin skapar það stíflu sem hefur áhrif á framgang annarra mála, þar á meðal tugi stjórnarfrumvarpa. Slíkt málþóf geti tafið þinglok.
„Þegar einn flokkur tekur mál í gíslingu með þessum hætti þá kallar það á viðbrögð og þau geta meðal annars birst í því að málin eru keyrð áfram á næturfundum og starfsáætlunum er breytt og þess háttar. Stór meirihluti þingsins getur ekki unað því endalaust að einn flokkur í stjórnarandstöðu ætli sér að stýra því hvaða mál eru afgreidd hér og hver ekki,“ segir Birgir, sem þykir endurtekningar Miðflokksmanna í ræðustól leiðinlegastar.
„Það kvartar enginn undan því þó að hér séu langir dagar en það væri hægt að nýta þá með markvissari og uppbyggilegri hætti.“