Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, vonar að eitthvað miði áfram í umræðunni um þriðja orkupakkann með þingmenn Miðflokksins fremsta í flokki. Þingfundur hófst klukkan 15.30 þar sem málið verður rætt áfram.
„Utanríkisráðherra er kominn til landsins og verður við óskum um að koma hér til umræðunnar. Það er þá að minnsta kosti mætt þeirri kröfu og við skulum sjá hvers miðflokksmenn meta það. Eins hefur komið fram að þeir eru vonandi eitthvað að hugleiða stöðuna eftir mína yfirlýsingu í morgun,“ sagði Steingrímur skömmu áður en þingfundur hófst.
Spurður hvort hann sé tilbúinn í enn eina nóttina sagði hann: „Það er fátt annað sem forseti getur gert ef þingmenn telja sig þurfa að tjá sig svona gríðarlega ríkulega en að skapa þá rými til þeirra ræðuhalda. Það hef ég gert með því að lengja þingfundi og með því að bæta við inn á nefndardaga þingfundum en hingað til hefur það ekki dugað, eins og kunnugt er.“
Hann bætti við að hann væri bjartsýnismaður og trúir því að menn fari að sjá til lands í þessu máli. „Eitt er nokkurn veginn jafnvíst og tvisvar tveir eru fjórir og sólin kemur upp á morgnana að einhvern veginn og einhvern tímann lýkur þessu og það þurfa allir að hafa í huga. Í upphafi skyldi endinn skoða segir gamalt máltæki. Það er mjög hyggilegt að hugsa fyrir ferðalokunum áður en menn leggja upp í leiðangur. Að minnsta kosti þegar langt er liðið á ferðina þurfa menn að fara að huga að því hvar hún á að enda.“