Ríkisskattstjóri mun hætta að senda út lista til fjölmiðla með upplýsingum um hæstu greiðendur, líkt og löng hefð hefur verið fyrir, þar sem embættið telur ljóst að slík birting teljist ekki samrýmast þeim ákvæðum sem gilda um persónuvernd og friðhelgi einkalífs. Þetta kemur til í framhaldi af áliti Persónuverndar um gagnagrunn vefsins tekjur.is frá því á síðasta ári.
Í tilkynningu frá ríkisskattstjóra kemur fram að í framhaldi af áliti Persónuverndar hafi embættið tekið til skoðunar alla framkvæmd við framlagningu og birtingu upplýsinga úr álagningarskrá. Könnun þessi standi enn yfir og sé ekki lokið.
Auglýsing um að álagningu sé lokið á einstaklinga verður birt 31. maí nk. og álagningar- og innheimtuseðlar einstaklinga gerðir aðgengilegir á vef ríkisskattstjóra þann dag. Aftur á móti mun álagningarskrá ekki verða lögð fram fyrr en dagana 19. ágúst til 2. september nk. eða 15 dögum fyrir lok kærufrests sem er til 2. september 2019.