Staða dómaranna fjögurra óbreytt

Skrifstofustjóri Landsréttar segir að niðurstaða Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs …
Skrifstofustjóri Landsréttar segir að niðurstaða Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónsson hafi ekki áhrif á stöðu dómaranna fjögurra heldur bíði Landsréttur eftir niðurstöðu yf­ir­deild MDE um end­urupp­töku­beiðni stjórn­valda. mbl.is/Hallur Már

Frávísun Hæstaréttar frá því á mánudag á skattamáli ríkisins gegn Jóni Ásgeiri Jó­hann­es­syni og Tryggva Jóns­syni hefur engin sérstök áhrif á stöðu fjögurra dómara við Landsrétt sem ekki hafa starfað við dómstólinn frá því í mars, þegar Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að dómarar við Landsrétt hefðu verið ólöglega skipaðir. Þetta segir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar.

Í niður­stöðu dóms­ins seg­ir að í ís­lensk­um lög­um sé ekki að finna heim­ild til end­urupp­töku máls í kjöl­far þess að Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu hafi kom­ist að þeirri niður­stöðu að brotið hafi verið gegn mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu við meðferð máls fyr­ir ís­lensk­um dóm­stól­um, við þær aðstæður sem uppi voru í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva.

Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær að niðurstaða Hæsta­rétt­ar staðfesti þá af­stöðu sem hef­ur áður komið fram í dóm­um Hæsta­rétt­ar um réttaráhrif dóma MDE hér inn­an­lands, það er að þeir hafi ein­fald­lega ekki bein réttaráhrif. Því telur hann að dómararnir fjórir ættu að snúa nú þegar til baka í störf sín.

Dómararnir fjórir voru skipaðir af Sig­ríði Á. And­er­sen, þáver­andi dóms­málaráðherra, þegar Landsrétti var komið á lagg­irn­ar í upp­hafi árs 2018, en voru ekki meðal þeirra sem hæfn­is­nefnd hafði metið meðal 15 hæf­ustu.

Bíða eftir svari frá yfirdeild MDE

Björn segir í samtali við mbl.is að niðurstaða Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva hafi ekki áhrif á stöðu dómaranna fjögurra heldur bíði Landsréttur eftir niðurstöðu yf­ir­deildar MDE um end­urupp­töku­beiðni stjórn­valda. Þá segir hann að engin formleg greining hafi farið fram á vegum Landsréttar á dómi Hæstaréttar og það standi ekki til. „Stjórnvöld eru búin að óska eftir meðferð hjá yfirdeildinni og þar við situr,“ segir Björn.  

Ein staða dómara við landsrétt var auglýst í upphafi mánaðarins þar sem Vil­hjálm­ur H. Vil­hjálms­son lands­rétt­ar­dóm­ari ákvað að láta af störf­um sök­um ald­urs. Tveir af átta umsækjendum um stöðuna eru í hópi dómaranna fjögurra sem hafa ekki dæmt í málum Landsréttar frá því í mars. Það eru Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir.

Skrifstofa Landsréttar mun ekki tjá sig um hvaða áhrif umsóknir þeirra hafa á núverandi stöðu þeirra við Landsrétt. Ásmundur sagði í samtali við mbl.is í gær að hann líti á umsókn sína sem svar við þeirri réttaróvissu hvort umboð hans sé gilt. Fari svo að Ásmund­ur verði skipaður dóm­ari við Lands­rétt í það embætti sem Vil­hjálm­ur skil­ur eft­ir sig seg­ir Ásmund­ur að það leiði sjálf­krafa til þess að hann láti af embætti sem hann hlaut 2017.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert