Frávísun Hæstaréttar frá því á mánudag á skattamáli ríkisins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Tryggva Jónssyni hefur engin sérstök áhrif á stöðu fjögurra dómara við Landsrétt sem ekki hafa starfað við dómstólinn frá því í mars, þegar Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að dómarar við Landsrétt hefðu verið ólöglega skipaðir. Þetta segir Björn L. Bergsson, skrifstofustjóri Landsréttar.
Í niðurstöðu dómsins segir að í íslenskum lögum sé ekki að finna heimild til endurupptöku máls í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi komist að þeirri niðurstöðu að brotið hafi verið gegn mannréttindasáttmála Evrópu við meðferð máls fyrir íslenskum dómstólum, við þær aðstæður sem uppi voru í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva.
Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær að niðurstaða Hæstaréttar staðfesti þá afstöðu sem hefur áður komið fram í dómum Hæstaréttar um réttaráhrif dóma MDE hér innanlands, það er að þeir hafi einfaldlega ekki bein réttaráhrif. Því telur hann að dómararnir fjórir ættu að snúa nú þegar til baka í störf sín.
Dómararnir fjórir voru skipaðir af Sigríði Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, þegar Landsrétti var komið á laggirnar í upphafi árs 2018, en voru ekki meðal þeirra sem hæfnisnefnd hafði metið meðal 15 hæfustu.
Björn segir í samtali við mbl.is að niðurstaða Hæstaréttar í máli Jóns Ásgeirs og Tryggva hafi ekki áhrif á stöðu dómaranna fjögurra heldur bíði Landsréttur eftir niðurstöðu yfirdeildar MDE um endurupptökubeiðni stjórnvalda. Þá segir hann að engin formleg greining hafi farið fram á vegum Landsréttar á dómi Hæstaréttar og það standi ekki til. „Stjórnvöld eru búin að óska eftir meðferð hjá yfirdeildinni og þar við situr,“ segir Björn.
Ein staða dómara við landsrétt var auglýst í upphafi mánaðarins þar sem Vilhjálmur H. Vilhjálmsson landsréttardómari ákvað að láta af störfum sökum aldurs. Tveir af átta umsækjendum um stöðuna eru í hópi dómaranna fjögurra sem hafa ekki dæmt í málum Landsréttar frá því í mars. Það eru Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir.
Skrifstofa Landsréttar mun ekki tjá sig um hvaða áhrif umsóknir þeirra hafa á núverandi stöðu þeirra við Landsrétt. Ásmundur sagði í samtali við mbl.is í gær að hann líti á umsókn sína sem svar við þeirri réttaróvissu hvort umboð hans sé gilt. Fari svo að Ásmundur verði skipaður dómari við Landsrétt í það embætti sem Vilhjálmur skilur eftir sig segir Ásmundur að það leiði sjálfkrafa til þess að hann láti af embætti sem hann hlaut 2017.