Forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma telur ekki útilokað, að ný greftrunaraðferð, sem einkafyrirtæki í Bandaríkjunum hefur þróað, ryðji sér til rúms.
Sagt var frá því í Morgunblaðinu sl. fimmtudag, að ríkisstjóri Washington-ríkis í Bandaríkjunum hefði staðfest lög sem heimila að líkum manna sé breytt í moltu, sem hægt væri að nota sem jarðvegsbæti, með það að markmiði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda vegna bálfara og greftrunar.
Þórsteinn Ragnarsson, forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma, segir vel hugsanlegt að þessi leið kunni að verða farin hér á landi. „Ef þetta yrði viðtekin venja í nágrannalöndunum og ef þetta væri í höndum aðila sem myndu gæta þess að þetta væri gert af virðingu, þá er ekkert hægt að neita neinni svona tillögu,“ segir Þórsteinn.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir hann þó, að nýjar hefðir í þessum efnum séu mjög lengi að ná fótfestu, málaflokkurinn sé í eðli sínu íhaldssamur.