Þingfundur stendur enn yfir á Alþingi, en þar hafa þingmenn Miðflokksins rætt um innleiðingu þriðja orkupakkans í alla nótt. Fundur hófst kl. 15:31 í gær og hefur nú staðið yfir í á nítjándu klukkustund.
[Viðbót: Þingfundi var slitið kl. 10:26 og stóð fundurinn því yfir í tæpar nítján stundir.]
Núna á tíunda tímanum stigu Miðflokksmenn í ræðustól og ræddu um fundarstjórn forseta. Þeir vildu fá svör við því hversu lengi til viðbótar þingfundur myndi standa. Nefndu þingmenn meðal annars að þeim hefði verið boðið til 90 ára afmælisfagnaðar Sjálfstæðisflokksins, sem hefst kl. 11 í dag.
Sagði Þorsteinn Sæmundsson að Sjálfstæðisflokknum yrði „lítill sómi sýndur“ með því að láta þingfund standa á meðan að þeirri hátíð stæði og ekki væri hægt að ætlast til þess að þeirra þingmenn kæmu til fundar á meðan að afmælinu væri fagnað.
„Umræður hafa staðið lengi, nú er kominn bjartur og heiður dagur og nú er hægt að halda umræðu áfram í björtu,“ sagði Guðjón S. Brjánsson þá úr forsetastóli og uppskár nokkurn hlátur í þingsal.
„Það eru fjórir þingmenn háttvirtir á mælendaskrá. Ef að vilji háttvirtra Miðflokksþingmanna stendur til þess að ljúka umræðunni þá er það mögulegt með skjótum hætti, þannig að það raski ekki afmælisfagnaði sjálfstæðismanna, en að öðru leyti munum við halda áfram enn um sinn umræðunni,“ sagði Guðjón og bætti því við að það yrði þó „ekki gert svo lengi að þeir háttvirtir þingmenn sem boðið er til afmælisfagnaðar nái ekki þeim viðburði.“
Af þessum orðum Guðjóns má ráða að þingfundinum verði slitið fyrir kl. 11 í dag, en einnig var rætt um fundarstjórn forseta á svipuðum nótum á þriðja tímanum í nótt.
Þá spurðu þingmenn Guðjón Brjánsson, sem einnig sat þá í stóli forseta, hve lengi enn þingfundur myndi standa og lýstu bæði Bergþór Ólason og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson yfir áhyggjum af velferð starfsmanna Alþingis og nefndu að forseti þingsins væri að reyna að þreyta þingmenn Miðflokksins til uppgjafar.
„Þetta er óboðlegt gagnvart starfsmönnum Alþingis. Ég vorkenni okkur þingmönnum nú minna en starfsmönnunum því við veljum að vera þarna,“ sagði Bergþór og Sigmundur Davíð sagði að hann teldi að aldrei í sögu þingsins hefði forseti þingsins „nálgast málin með þeim hætti að reyna að fela umræðuna með því að láta hana helst fara fram um miðja nótt eða að morgni dags.“
Hann sagði að Miðflokksmenn myndu ekki þreytast á að „tala um þetta mál sem varðar slíka grundvallarhagsmuni þjóðarinna.“
Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri grænna, mætti einnig í þingsalinn og kvaddi sér hljóðs undir þessum lið og sagði „leikhús fáránleikans“ hafa „náð nýjum hæðum“.
„Ég held að háttvirtir þingmenn Miðflokksins, sem hafa haldið hér þinginu í þessum umræðum hér fram eftir nætur dag eftir dag ættu að skammast sín fyrir að vera að draga núna starfsfólk Alþingis, sem hefur þurft að hlaupa eftir þeirra duttlungum, inn í þessa umræðu.“
Hann gerði orð Bergþórs Ólasonar, um að verið væri að þreyta Miðflokksmenn til þess að fá til að gefast upp, að umtalsefni.
„Í hvaða sandkassaleik erum við forseti? Við erum á Alþingi Íslendinga þar sem við ræðum um mál og náum fram lýðræðislegum vilja með atkvæðagreiðslu. Það er fullkomlega í höndum háttvirtra þingmanna Miðflokksins að hleypa starfsfólki heim. Það er í þeirra höndum,“ sagði Kolbeinn.
Miðflokksmenn voru ekki sáttir með þessi orð Kolbeins og sögðu þingmenn flokksins í ræðum sínum í kjölfarið að það væri svo að forseti þingsins stýrði dagskránni.
Þorsteinn Sæmundsson sagði að hann hefði alltaf „gaman að því þegar þingmenn Vinstri grænna koma þegar aðrir eru í málþófi og segjast vera björt mey og hrein.“
„Það finnst mér alltaf skemmtilegt,“ sagði Þorsteinn og bætti við að hann teldi að ekki nokkur einasti stjórnmálaflokkur hefði stundað málþóf í meira mæli en Vinstri græn.