Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er nú staddur í Rómarborg á Ítalíu þar sem hann kemur til með að hitta Frans páfa í Vatíkaninu á morgun, ásamt fjármálaráðherrum fleiri ríkja.
Tilefni og umræðuefni fundarins eru loftslagsmál og er þeim fjármálaráðherrum boðið sem hluti eru af sérstakri samstöðu fjármálaráðherra um loftslagsmál.
Á dagskrá fundarins eru erindi frá ýmsum vísindamönnum á sviði umhverfis-, loftslags-, og orkumála, forseta Allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna, Mariu Espinosa og páfanum sjálfum.