„Getur verið að þingmenn í öllum flokkum telji sjálfsagt að þjóðin sé blekkt?“ spyr Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, á vefsíðu sinni í dag þar sem hann ræðir umfjöllun mbl.is fyrir viku hvar greint var frá því að utanríkisráðuneytið og Evrópusambandið væru sammála um að umsókn Íslands um inngöngu í sambandið frá 2009 hefði ekki verið dregin til baka eins og haldið var fram á sínum tíma.
Fram kom í umfjöllun mbl.is að þegar ríki sækti um inngöngu í Evrópusambandið yrði það „applicant country“ en væri umsóknin samþykkt af ráðherraráði sambandsins yrði landið „candidate country“. Í bréfi sem sent var Evrópusambandinu af þáverandi ríkisstjórn Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins árið 2015, og sagt var fela í sér að umsóknin hefði verið dregin til baka, kom hins vegar aðeins fram að Íslandi væri ekki lengur „candidate country“ sem breytti þar með engu um umsóknina sem slíka.
Styrmir segir að annað hvort hafi ráðherrar í ríkisstjórninni blekkt íslensku þjóðina varðandi bréfið „eða ekki vitað betur og hafi þá væntanlega sjálfir verið blekktir af sínum embættismönnum. Auðvitað er ekki hægt að útiloka að íslenzkir embættismenn hafi ekki vitað betur sjálfir, en þá er staðan á íslenzka stjórnkerfinu enn verri en talið hefur verið.“ Lítil sem engin viðbrögð hafi komið frá alþingismönnum vegna málsins.