Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, eins hinna sýknuðu í Guðmundar- og Geirfinnsmálum, segir íslenska ríkið hafa slitið samningaviðræðum í sáttaumleitunum milli stjórnvalda og hinna nýsýknuðu og aðstandenda þeirra. Segir hann að engin önnur úrlausn sé í málinu en að leita til dómstóla.
Fréttablaðið greindi frá því í morgun að sáttaumleitanir væru að sigla í strand eftir að Guðjón hafnaði bótatilboði sáttanefndar stjórnvalda. Ragnar segist ekki vera í stöðu til að tjá sig um mál annarra sem koma að málinu. „En ég veit ekki hvort ríkið var búið á koma á samkomulagi við einhverja þannig að á enda væri komið.“
Líkt og fram kom í Silfrinu fyrr í mánuðinum fór Guðjón fram á að fá einn milljarð króna í bætur en greint hefur verið frá því að sáttanefndinni hafi verið sett 600 milljóna króna þak af ríkinu.
Ragnar segir að ríkið hafi frá upphafi gefið það í skyn að ef farið yrði fram á bætur sem ríkið teldi of háar yrði dómstólaleiðin alltaf niðurstaðan. Það hafi nú fengist staðfest. „Það er sennilega engin úrlausn önnur úr því að ríkið hefur ekki áhuga á að ljúka málinu með samkomulagi,“ segir Ragnar.
Hann bendir á að málið geti ekki verið léttbært fyrir ríkið. „Við verðum að hafa það í huga að verið er að fjalla um alvarlegustu dómsmorð seinni tíma á Íslandi,“ segir Ragnar.
Að óbreyttu verður það í höndum dómstóla að kveða á um bætur í málinu. „Þetta er ekki flókið mál, það þarf ekki að sanna eitt né annað, það þarf að ákveða fjárhæð. Í máli Guðjóns er ríkinu skylt að lögum að bæta honum tjón sem hann varð fyrir og það er svokölluð hlutlæg bótaskylda ríkisins,“ segir Ragnar.