„Við erum ánægð með að þessu ferli sé loksins lokið og getum farið að hlakka til að fá skipið heim,“ segir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja, um nýsamþykkt lokauppgjör Vegagerðarinnar við skipasmíðastöðina Crist S.A. vegna Herjólfs.
Tilboð Vegagerðarinnar vegna uppgjörsins var samþykkt í dag en deilur hafa staðið um greiðslur vegna skipasmíðinnar vikum saman.
Herjólfur hefur siglt nær sleitulaust til og frá Landeyjahöfn frá því um miðjan maí og segir Íris það muna öllu. Hún segir samgöngurnar þó vafalaust verða enn betri þegar nýr Herjólfur kemst í gagnið, enda sé sá hannaður fyrir Landeyjahöfn og sá gamli orðinn lúinn. „Þetta verður mikil samgöngubót.“
Samningarnir hafa ekki verið undirritaðir en gert er ráð fyrir því að Herjólfur verði afhentur snemma í næstu viku. Siglingin til Íslands tekur svo einhverja daga og áður en áætlanasiglingar hefjast munu ákveðnar prófanir fara fram.