Óskað hefur verið eftir því að Vinnueftirlitið og/eða lögreglan grípi til aðgerða vegna yfirstandandi brota á Alþingi á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Samtökin Orkan okkar afhentu Vinnueftirlitinu kæru þess efnis í morgun.
Nú hagar svo til að nefnda- og þingfundir á Alþingi hafa staðið yfir nánast samfellt sólarhringum saman. Fundað er á víxl í nefndum og í þinginu, hvíldarlaust. Störf Alþingis eru um þessar mundir í andstöðu við Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, einkum IX kafla laganna um hvíldartíma, frídaga og hámarksvinnutíma. Lögboðinn 11 klst. hvíldartími er órafjarri því að vera virtur.
Lög þessi eru vitaskuld ekki sett að tilefnislausu. Mikilvægt er að starfsmenn, ekki síst alþingismenn, geti haldið fullri einbeitingu við störf sín og bíði ekki tjón á heilsu sinni. Þá er einnig að því að hyggja að aðilar sem hagsmuna eiga að gæta og almenningur hafi tök á að fylgjast með umræðunni í rauntíma.
Málið er sérstaklega alvarlegt í ljósi þess að um sjálfan löggjafann er að ræða og með því háttalagi sem hér er vísað til er gefið í skyn að lögum þurfi bara að fylgja þegar hentar.
Þetta kemur fram í tilkynningu.
Samtökin Orkan okkar afhentu kæruna í morgun. Þetta eru samtök þeirra sem vilja standa vörð um sjálfsákvörðunarrétt Íslands í orkumálum, eins og segir á vef samtakanna. Markmið þeirra er „að vekja athygli á mikilvægi orkuauðlindarinnar fyrir lífskjörin í landinu og kynna rök gegn frekari innleiðingu orkulöggjafar ESB hér á landi. Samtökin eru opin öllum sem vilja styðja málstaðinn.“
Þau voru stofnuð í október 2018.