„Hefur tekist ætlunarverkið“

Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sést hér í ræðustól á …
Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, sést hér í ræðustól á Alþingi. Hann segir að „bábiljusinnum“ hafi tekist að sannfæra almenning um ýmislegt sem ekki er rétt. mbl.is/​Hari

„Aðallega finnst mér „bábiljusinnunum“ hafa tekist ætlunarverk sitt að sannfæra óþægilega stóran hluta almennings um hluti sem eru ekki réttir.“ Þetta segir Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður pírata, í samtali við mbl.is um ástæðu þess að hann lagði í gærkvöld til að umræðu um þriðja orkupakka Evrópusambandsins(ESB) væri frestað fram á næsta haust. Þingmenn Miðflokks hafa undanfarna daga og nætur haldið uppi málþófi og lítur nú út fyrir að mögulega þurfi að fresta sumarþinglokum um einhvern tíma. 

Spurður hvaða rangfærslur það séu sem „bábiljusinnarnir“, þ.e. andstæðingar þriðja orkupakka, hafa sannfært fólk um segir Helgi Hrafn: „Til dæmis það að það sé einhver vafi á því hvort þetta samræmist stjórnarskrá eða ekki. Það eru öngvir lögfræðingar sem ég veit um sem sýna fram á nokkurn vafa um það, jafnvel þeir sem eru mjög harðlega á móti málinu af einhverjum öðrum ástæðum.“

Margar rangfærslur í máli Miðflokks

„Annað sem er ekki rétt, en er búið að hamra inn í vitund fólks er að ýmist [eftirlitsstofnanirnar] ACER eða ESA verði með eitthvað virkt eftirlit, eða eitthvað útibú, á Íslandi. Þetta er bara ekki rétt,“ heldur Helgi áfram og segir að Orkustofnun, sem sé hluti af íslenska framkvæmdavaldinu, muni sjá um eftirlit með orkumálum.

„Svo er það auðvitað stóra málið,“ segir Helgi og vísar þá til þeirrar fullyrðingar að innleiðing orkupakkans muni hafa í för með sér lagningu sæstrengs milli Íslands og annarra EES-ríkja. Talsmenn orkupakkans, og ríkisstjórnarinnar, hafa löngum lagt á það áherslu að þriðji orkupakkinn hafi enga skyldu í för með sér um að leyfa lagningu slíks sæstrengs. Um þetta segir Helgi að andstæðingar orkupakkans hafi við því sagt að ESA, eftirlitsstofnun EFTA, muni mögulega vilja kæra Ísland fyrir að innleiða orkupakkann ekki rétt, og annað slíkt.

Þeir beiti einnig rökum tengdu „frosnakjötsmálinu“ málflutningi sínum til stuðnings, en Helgi segir það mál vera eðlisólíkt orkupakkamálinu. Frosnakjötsmálið, eins og Helgi kallar það, snerist um innflutning á ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum matvælum. Í samtali við Morgunblaðið í gær sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, „Þar töldum við okkur hafa fyrirvara um innflutning á ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum matvælum. síðan kom í ljós að sá fyrirvari hefði ekki gildi því markmiðið um sameiginlegan markað var sterkara.“

Helgi Hrafn gerir athugasemd við þennan málflutning og segir: „Það er bara ekki rétt að einhverjir fyrirvarar hafi klikkað þar. Það kemur mjög skýrt fram í dómi Hæstaréttar að það voru ekki fyrirvarar um frosið kjöt.“ Þá bætir hann við: „[Þetta er því] ekki spurning um hvort fyrirvarar sem settir eru haldi, heldur hvort Íslendingar setji þá fyrirvara sem þeir vilja.“

Seinast í gær lagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áherslu á að …
Seinast í gær lagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra áherslu á að innleiðing þriðja orkupakkans hefði ekki í för með sér skyldu til að leyfa lagningu sæstrengs. Haraldur Jónasson/Hari

Orðræða sem hann er ósammála

Samtalið berst að fjórða orkupakkanum svokallaða, sem ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti í síðustu viku. Eins og starfssystir hans á Alþingi, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sagði í samtali við mbl.is fyrr í dag segir Helgi að honum þyki umræðan um hinn fjórða orkupakka ESB ekki skipta máli skipta fyrir umræðuna um þann þriðja. Hann tekur þó fram að hann hafi ekki kynnt sér fjórða orkupakkann efnislega. 

Spurður um álit sitt á því að umræðan um fjórða orkupakka Evrópusambandsins hafi nýlega komið skyndilega inn í umræðuna um þriðja orkupakkann segir Helgi: „Mér hefur fundist það bara vera hluti af þessu orðræðu að EES sé alltaf að taka meira af okkur. Ég er ekki sammála þeirri orðræðu. Ef maður er bara á móti því að hafa sameiginlegar reglur, og ef maður er bara á móti fjórfrelsinu, gott og vel, þá á maður bara að vera á móti því.“ Hann bætir við að að hans mati skjóti það skökku við að vera hlynntur því sem EES-samningurinn hefur í för með sér að einhverju leyti, en ekki öllu. „Ef maður er hlynntur þessu til að byrja með þá hlýtur maður að vera hlynntur þessu góða sem maður er hlynntur. Ekki vegna þess að EES er að segja okkur að gera það heldur vegna þess að við viljum það sjálf. Við erum ekki að gefa þessar ákvarðanir upp á bátinn, við erum að taka þessar ákvarðanir sjálf.“

Helgi Hrafn er einn fárra sem hefur tekið til máls …
Helgi Hrafn er einn fárra sem hefur tekið til máls milli ræða Miðflokksmanna, sem þeir hafa flutt dag og nótt. Haraldur Jónasson/Hari

Snýst ekki um orkupakkana á undan

„Hvorki ég né nokkur sem ég veit um hefur haldið þeim rökum á lofti að við þurfum að samþykkja þriðja orkupakkann af því að höfum samþykkt þann fyrsta og annan,“ segir Helgi en í ofannefndu viðtali Morgunblaðsins við Sigmund Davíð sagði Sigmundur að undarlegt væri að í umræðu um þriðja orkupakkann væri ekki rætt um þann fjórða sökum þess að þriðji orkupakkinn hafi verið talinn framhald og afleiðing af fyrsta og öðrum orkupakkanum. 

Helgi nefnir í þessu samhengi þá gríðarlegu umfjöllun sem þriðji orkupakkinn hefur fengið í fjölmiðlum og á Alþingi og segir: „Væntanlega mun sameiginelga EES-nefndin sjá hvað þriðji orkupakkinn hefur fengið mikla umfjöllun hérna og passa þá að „tjekka á pólitíkinni“, sérstaklega hvað varðar undanþágur og fyrirvara, þegar kemur að fjórða orkupakkanum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert