„Hver pakki er tekinn fyrir sig“

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd Alþingis.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Umræðan um fjórða orkupakkann svokallaða skiptir í raun engu máli fyrir umræðuna um þann þriðja. „Hver pakki er tekinn fyrir sig.“ Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og nefndarmaður í utanríkismálanefnd Alþingis, í samtali við mbl.is um orkupakka Evrópusambandsins (ESB), stöðuna á Alþingi og málþóf Miðflokksmanna.

„Ríkisstjórnir hafa staðið sig vel“

Umræðan um þriðja orkupakkann er nú í algleymingi á Alþingi en þó hafa umræður um fjórða orkupakkann, sem ráðherraráð ESB samþykkti í síðustu viku, þegar slæðst inn í umræðuna. Spurð um þetta hrósar Þorgerður öllum þeim sem hafa haldið umræðu um orkumál á lofti og segir að reynsla af innleiðingu fyrri orkupakka muni leiða af sér að ríkulega verði staðið vörð um hagsmuni Íslands komi til innleiðingar þess fjórða. „Líkt og hefur verið gert með þriðja orkupakkann,“ segir hún. 

„Utanríkisþjónustan hefur staðið sig vel. Ríkisstjórnir þvert á flokka hafa staðið sig vel, líka ríkisstjórn Sigmundar Davíðs, með því að gæta fyrirvara varðandi þriðja orkupakkann. Það sama munum við að sjálfsögðu gera með fjórða orkupakkann,“ segir Þorgerður og bætir við að hún finni mikla samstöðu meðal þingmanna um að gæta hagsmuna Íslands í orkumálum. „Þess vegna eigum við einfaldlega að klára þriðja orkupakkann og fara með opinn huga inn í umræðuna um þann fjórða. Valdið er okkar. Ég hef enga trú á öðru en að sá pakki sé til þess að ýta enn frekar undir samkeppni, neytendamál og umhverfismál. Við Íslendingar munum aldrei geta leyst loftslagsmálin ein.“

Myndi frekar vilja ræða önnur mál

Spurð um stöðuna á Alþingi vegna málþófs Miðflokksmanna segir Þorgerður það vera bagalegt að einn flokkur teppi umræðuna um öll mál önnur en orkupakkamálin. „Mikilvæg mál, eins og ný fjármálastefna, liggur fyrir. Ég myndi miklu frekar vilja ræða t.d. stöðu velferðarkerfisins, aldraðra og öryrkja, en þetta kemst ekki á dagskrá meðan Miðflokkurinn er að stoppa allt í þinginu,“ segir Þorgerður en bætir við að ríkisstjórnin verði einnig að athuga hvað hún geti gert í málinu. „Þetta er mál sem hún leggur fram og hún þarf að koma með lausnir.“

Sigmundur Davíð og hans menn í Miðflokknum hafa æði mikið …
Sigmundur Davíð og hans menn í Miðflokknum hafa æði mikið að segja um þriðja orkupakkann. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í gærkvöld sagði Helgi Hrafn Gunnarsson pírati að best væri að fresta umræðu um þriðja orkupakkann fram á haust. Þorgerður segir aðspurð ekki mikla skynsemi í því ef það yrði niðurstaðan. „Ég tel að það eigi að klára þetta.“ Hún segir að miklir hagsmunir fyrir Ísland séu fólgnir í því að klára þetta mál sem fyrst, og að hún sé mjög hugsi yfir því ef menn ætli hugsanlega að veikja EES-samstarfið með því að draga málið á langinn. „Þá eru menn ekki að forgangsraða rétt fyrir okkur Íslendinga,“ segir hún og bætir við: „Því það er líka hagsmunamál að Ísland, þjóðin sjálf, fái rétt verð fyrir orkuna.  Aðhaldið frá orkupökkunum hefur hjálpað íslenska ríkinu og okkur, eigendum Landsvirkjunar, að fá rétt verð fyrir orkuna. Svo ekki sé minnst á samkeppni og neytendamál“

Um málflutning Miðflokksmanna segir Þorgerður að þeir, og aðrir andstæðingar orkupakkans, „vilji greinilega hverfa aftur til gamla tímans þar sem gegnsæi um orkuverð var ekkert.“ Hún segir þó að eðlilega þurfi að ræða við Miðflokkinn, um hvernig eigi að gera hlutina og fá flokkinn til samstarfs. „Það samtal á að sjálfsögðu að taka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert