„Við erum hér með mjög mörg góð mál,“ sagði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, á Alþingi undir liðnum störf þingsins. Hún sagði mál sem gagnist fátæku fólki tefjast vegna málþófs Miðflokksins um þriðja orkupakkann.
Hún vitnaði í Steingrím J. Sigfússon, forseta Alþingis, sem sagði mál bíða í nefndum á meðan þingmenn Miðflokksins hafi rætt í 90 klukkustundir um þriðja orkupakkann.
„Á meðan í nafni lýðræðis er Alþingi Íslendinga, æðsta ræðustól landsins, haldið hér í gíslingu,“ sagði Inga.
Inga tók það fram að hún hefði fyrst talað um innleiðingu þriðja orkupakkans og hefði alla tíð verið mótfallin þriðja orkupakkanum.
Hún sagði það ekki breyta þeirri staðreynd að menn þurfi að vita hvenær komið er gott og ekki þýði að láta lítinn minnihluta haga sér svona í þágu lýðræðis.
„Ég hef ekki upplifað neitt annað heldur en ofbeldi og vanlíðan yfir því að geta ekki sinnt þeim störfum sem ég var kosin til.“
Að loknum umræðum um störf þingsins hófst enn á ný umræða um þriðja orkupakkann og eru þingmenn Miðflokksins einir á mælendaskrá.