Fyrirtækjum „slátrað“ fyrir sæstreng?

Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA. mbl.is/Hari

„Ég skal fúslega viðurkenna að ég óttast innilega um atvinnuöryggi minna félagsmanna á Grundartanga eftir að í ljós kom að umtalsverð hækkun mun verða á raforku til Elkem, enda hefur fyrirtækið í gegnum árin og áratugina verið að berjast fyrir tilveru sinni.“

Þetta segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness (VLFA), á Facebook-síðu sinni. Vísar hann til þess að Landsvirkjun hafi tilkynnt í gær að raforkusamningur við Elkem Ísland á Grundartanga myndi hækka umtalsvert. Forsvarsmenn Elkem Ísland hafi verið búnir að reyna að ná samningum við Landsvirkjun um allanga hríð en án árangurs. Málinu hafi að lokum verið vísað til gerðardóms þar sem ekki náðust samningar á milli fyrirtækjanna.

Hefði verið lokað og hundruð misst vinnuna

„Það liggur fyrir að ef auglýst raforkuverð sem Landsvirkjun vill fá fyrir raforkuna hefði orðið að veruleika þá má segja að nánast öruggt hefði verið að fyrirtækinu hefði verðið lokað og hundruð starfsmanna misst lífviðurværi sitt. Þrátt fyrir að Landsvirkjun hafi ekki náð í gegn sínu auglýsta raforkuverði sem þeir vilja fá, þá mun þessi umtalsverða hækkun ógna rekstararforsendum Elkem gríðarlega að mínu mati og um leið ógna öryggi þeirra sem þar starfa.“

Vilhjálmur segir að nánast frá þeim tíma sem Landsvirkjun hafi samið við Ísal árið 2010 hafi álverið í Straumsvík verið rekið með tapi. Telur hann að litlu hafi munað að því hefði verið lokað 2015. „Ég velti því fyrir mér hvort það sé stefna Landsvirkjunar að slátra rekstarforsendum fyrirtækja í orkufrekum iðnaði hægt og bítandi og segja svo þegar búið verður að slátra þessum fyrirtækjum og svipta þúsundir starfsmanna lífsviðurværi sínu að núna sé svo mikil umframorka til að við verðum að samþykkja að leggja sæstreng til Íslands.“

Lífsviðurværi þúsunda ógnað markvisst

Spyr Vilhjálmur hvar eigendastefna Landsvirkjunar sé í þessu máli og hvort stjórnvöld ætli „að leyfa Landsvirkjun að ógna atvinnuöryggi þúsunda starfsmanna í orkufrekum iðnaði og lífviðurværi heilu byggðarlagana eins og t.d. hér á Akranesi. Já, mín skoðun er sú að forstjóri Landsvirkjunar er markvisst að ógna lífsviðurværi þúsunda starfsmanna í orkufrekum iðnaði með því að krefja þessi fyrirtæki um raforkuverð sem kippir grundvelli þeirra til áframhaldandi atvinnusköpunar og uppbyggingar hér á landi í burtu.“

Vilhjálmur segir að það sé „ekki dónalegt fyrir Landsvirkjun að vera búið að eyða háum upphæðum í að kanna kosti þess að hingað sé lagður sæstrengur þegar hægt er að slátra orkufrekum iðnaði með gríðarlegum hækkunum á raforkuverði og segja svo „við verðum að fá sæstreng því við eigum svo mikið af ónýttri raforku til.““ Vilhjálmur segir engan vera að tala um að gefa raforkuna til orkufreks iðnaðar, enda verði ekki hægt að sjá að svo sé þegar horft sé á afkomu Landsvirkjunar. Fjárhagsstaða fyrirtækisins sé enda „gjörsamlega frábær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka