„Sagan kennir okkur að það er í umhverfi efasemda sem minni spámenn sjá sér leik á borði og breyta efasemdum í ótta. Þeir vita sem er að þegar fólk er óttaslegið þá er auðveldara að stíga á bremsuna og taka óskynsamlegar ákvarðanir. Þegar alið er á ótta er málefnaleg umræða sett í gapastokkinn og við tekur eðlishvötin. Eðlishvötin segir okkur að breytingar séu hættulegar.“
Þetta sagði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í ræðu sinni í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í dag.
Þar sagði hún orð skipta máli. „Það skiptir máli hvernig við veljum þau og hvernig við notum þau. Við getum glatt og lyft upp en við getum líka sært og brotið niður með orðum einum. Og við getum blekkt og við getum sagt satt.“
„Ég tel að við öll hér inni eigum það sameiginlega markmið að ætla bæta líf okkar allra þótt við séum ekki alltaf sammála um leiðir,“ sagði Áslaug Arna, og að eðlilega kæmu upp efasemdir, spurningar og gagnrýni á þær leiðir sem farnar væru.
Áslaug Arna sagði að alltaf yrðu til stjórnmálamenn sem vildu nota óttann og að jaðarflokkar væru alltaf með „einfaldar lausnir á vandamálum sem þeir sjálfir hafa búið til.“
„Það hefur mikið verið fjallað um EES-samninginn í þessum sal undanfarið. Það má öllum vera ljóst, nema þeim sem kjósa að setja kíkinn á blinda augað, að sá samningur hefur gjörbreytt íslensku samfélagi.“
„Margir þekkja ekki annað en Ísland innan EES samstarfsins og ég efast um að þeir sem muna eftir Íslandi utan EES vilji snúa aftur til þess tíma. Það er hins vegar margt annað sem er betra að hafa að leiðarljósi við mótun utanríkis- og viðskiptastefnu okkar en þessa eitruðu blöndu af afturhaldi, fortíðarþrá og framtíðarótta.“
Sagði Áslaug Arna heiminn hafa breyst hratt á síðustu áratugum. Breytingarnar hefðu þó ekki endilega orðið með ákvörðunum stjórnvalda. „Þannig segir rithöfundurinn Yuval Noah Harari í bók sinni 21 lærdómur fyrir 21. öldina, að fátt hafi breytt meiru en internetið, og bendir á að enginn hafi kosið internetið.“
Áslaug Arna sagði ljóst að alþjóðavæðingin virðist ógnvænleg fyrir suma. „Við stoppum ekki þessa þróun en við höfum alla burði til að taka þátt í henni. Sjálfstæðisflokkurinn mun sem fyrr vera þar í forystu.“