Besti tíminn til að lækka skatta

Ásdís Kristjánsdóttir, formaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.
Ásdís Kristjánsdóttir, formaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það kemur ekki á óvart að þessi staða sé komin upp. Við höfum ítrekað varað við því að forsendur í áætlunum stjórnvalda að treysta á óslitinn hagvöxt í 14 ár sé of mikil bjartsýni,“ segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins. 

„Nú kemur á daginn að þetta hagvaxtarskeið verður ekki 14 ár í það heila heldur 8 ár. Útgjöld ríkisins hafa að undanförnu aukist ár frá ári samfara miklum uppgangi og vaxandi skatttekjum. Stjórnvöld einfaldlega treystu því að tekjur myndu áfram vaxa út árið 2024. Það var of mikil bjartsýni eins og nú kemur á daginn,“ segir Ásdís. 

Samkvæmt hagspá Hagstofunnar fyrir maímánuð verður hagþróun á Íslandi með allt öðrum hætti en spáð hafði verið fyrir. Lítur nú út fyrir að tekjur ríkissjóðs dragist umtalsvert saman, meðal annars vegna loðnubrests og gjaldþrots WOW Air, og gæti afkoman því versnað um allt að 35 milljarða króna. 

„Búa hefði mátt betur í haginn og það eru ótrúleg vonbrigði að um leið og hagvaxtarforsendur bresta þá þurfi skyndilega að leggja fram nýja stefnu og fresta ákveðnum skattalækkunum eins og bankaskattinum. Sérstakir skattar á fjármálafyrirtæki eru á skjön við aðrar nágrannaþjóðir og það eru viðskiptavinirnir, heimili og fyrirtæki, sem greiða fyrir slíka skattheimtu í formi lakari vaxtakjara. Lækkun bankaskattsins er því hagsmunamál fyrir heimili og fyrirtæki,“ segir Ásdís. 

Afkomuviðmið verða að taka mið af hagsveiflunni 

Þá bendir Ásdís á að þessi staða sem nú er uppi endurspeglar mikilvægi þess að stjórnvöld endurskoði þau afkomuviðmið sem þau eru skuldbundin til að framfylgja.

„Gallinn við afkomuregluna er að hún tekur ekki mið af hagsveiflunni hverju sinni. Þannig að þegar mikill uppgangur er í efnahagslífinu og skatttekjur vaxa þá er mjög einfalt að uppfylla afkomuviðmiðin jafnvel samfara miklum útgjaldavexti eins og við höfum séð síðustu ár. Á móti kemur að það er þeim mun erfiðara að uppfylla regluna þegar hagvaxtarforsendur breytast og slaki myndast í efnahagslífinu, líkt og nú er að gerast.

„Ef afkomuviðmiðin hefðu tekið mið af hagsveiflunni þá hefði verið meira svigrúm hjá stjórnvöldum til að skila minni afkomu í dag út af breyttum efnahagsforsendum. Það er vonandi að stjórnvöld dragi lærdóm af þeirri stöðu sem nú er uppi og samfara nýrri fjármálstefnu að þau endurskoði afkomuviðmið sín. Slík endurskoðun yrði auk þess í samræmi við það sem flest önnur iðnríki miða við.“

Fjármála- og efnahagsráðherra lagði í gær fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um endurskoðaða fjármálastefnu fyrir árin 2018 til 2022. Felur tillagan í sér að dregið verði úr áformuðum afgangi á heildarafkomu ríkisins í samræmi við breyttar efnahagshorfur.

Samkvæmt Ásdísi munu Samtök atvinnulífsins koma fram með nýja umsögn þegar endurskoðuð fjármálastefna liggur fyrir.

Hefur ekki áhrif á kjarasamninga

Aðspurð telur Ásdís ekki að endurskoðuð fjármálastefna komi til með að hafa áhrif á fyrirliggjandi kjarasamninga.

„Það ætti ekki að gera það að því gefnu að það verði ekki hætt við frekari boðaðar skattalækkanir. Það yrði í raun gríðarlega óábyrg stefna að hætta við boðaðar skattalækkanir enda mikilvægt að stjórnvöld styðji við samkeppnishæfni atvinnulífsins, fjölgun starfa og áframhaldandi hagvöxt. Besta leiðin til þess er að lækka skatta. Það er ekki síður óábyrg stefna að stunda þensluhvetjandi fjármálastefnu á uppgangstímum og að festa Ísland í sessi sem háskattaríki þegar dregur úr hagvexti. Besti tíminn er nú til að lækka skatta,“ segir Ásdís

„Miðað við ummæli ráðherra þá tel ég nú að það sé frekar verið að horfa til útgjaldahliðarinnar og að ráðist verði í hagræðingar þar. Það er eðlilegt í ljósi þess að útgjöld hafa auðvitað vaxið mikið á undanförnum árum og nú þegar til bakslags kemur þurfa stjórnvöld að huga að því hvernig unnt er að nýta betur það fjármagn sem úr er að spila. Breyttar efnahagshorfur hljóta einfaldlega að kalla fram aukna áherslur á forgangsröðun, skilvirkni og hagræðingar í opinberum rekstri.“

 Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki 

„Það er þó gríðarlega jákvætt að stjórnvöld nýti uppsveifluna í að greiða niður skuldir, sem bæði styrkir stöðu ríkissjóðs og dregur úr vaxtakostnaði. Stjórnvöld gegna mikilvægu hlutverki í að milda áhrif niðursveiflunnar. Þess vegna mega stjórnvöld ekki víkja frá áformum sínum um skattalækkanir. Þá eru áform um að auka opinberar framkvæmdir sem er jákvætt á þessum tímapunkti.

„Mikilvægt er að draga lærdóm af síðustu niðursveiflu en á árunum 2009 til 2011 voru skattar hækkaðir og opinberum framkvæmdum frestað. Nú tíu árum síðar eru skattar enn háir og uppsöfnuð fjárfestingaþörf hins opinbera hleypur á hundruðum milljarða. Það blasir við að stjórnvöld geta ekki brugðist eins við nú. Það yrði jafnframt óábyrg stefna og til þess fallin að draga úr samkeppnishæfni atvinnulífsins og dýpka niðursveifluna.“

Ásdís segist ekki hafa of miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin þó að hún sé vissulega ekki ákjósanleg.

„Við teljum fyrst og fremst að það sé verulegt svigrúm til að draga úr útgjöldum án þess að til niðurskurðar komi. Það þarf að horfa til nágrannaríkja í auknum mæli, straumlínulaga stjórnsýsluna og nýta önnur rekstrarform til að auka skilvirkni eins og á sviði heilbrigðis- og menntamála.

„Staðan er ekki slæm, opinberar skuldir eru lágar í alþjóðlegum samanburði og það er afgangur enn á rekstri ríkisins en nú er gert ráð fyrir að gengið sé á hann án þess að halli myndist á rekstrinum. Mörg önnur iðnríki eru enn að glíma við mikinn hallarekstur og háar skuldir, í alþjóðlegum samanburði eru stjórnvöld því í sterkri stöðu. Þetta ár og næsta verða erfið ár og það er hlutverk stjórnvalda að milda höggið.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert