Flugbáturinn Catalina lenti á Reykjavíkurflugvelli nú síðdegis, en Catalina kom sérstaklega til landsins til að taka þátt í árlegri flugsýningu sem haldin verður á Reykjavíkurflugvelli á laugardag.
Flugbáturinn var staðsettur á Íslandi á stríðsárunum og kemur nú aftur í fyrsta skipti, en hann er einn af þeim merkilegri í flugsögunni. Þjónuðu bátarnir íslenskum flugsamgöngum vel á fyrstu árum farþegaflugs. Að loknum flugatriðum á laugardag mun gestum gefast færi á að skoða flugbátinn í návígi.
„Við hlökkum mikið til laugardagsins. Við erum með nokkur atriði sem ekki hafa sést hérlendis í fjölda ára svo sem flugbátur og loftbelgur,“ var haft eftir Matthíasi Sveinbjörnssyni, forseta Flugmálafélags Íslands, um flugsýninguna.