Flúði Laugaveginn og salan rauk upp

Sverrir Bergmann, eigandi Herrahússins Adam, í nýrri verslun sinni við …
Sverrir Bergmann, eigandi Herrahússins Adam, í nýrri verslun sinni við Ármúla í Reykjavík. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allar vikur eru betri hér en á Laugaveginum – ég hef aldrei setið í fangelsi, en mér líður eins og ég hafi nú losnað úr prísund,“ segir Sverrir Bergmann, eigandi Herrahússins Adams, í samtali við Morgunblaðið.

Verslun Sverris var fyrst opnuð í miðbæ Reykjavíkur árið 1965. Seint á seinasta ári var ákveðið að loka versluninni við Laugaveg og flytja hana í Ármúla í Reykjavík. Þetta gerði Sverrir vegna þess að „borgarstjórn er að hrekja alla í burtu með götulokunum“. Frá því að verslunin var opnuð í nýja húsnæðinu hefur sala aukist mjög, eða um 40% í heildina og um 60% sumar vikur. Ástæðuna fyrir þessu segir Sverrir vera betra aðgengi að búðinni og næg bílastæði fyrir viðskiptavini. Þá er húsaleiga einnig mun lægri en á Laugavegi, sem auðveldar verslunarrekstur.

Margir að gefast upp

Sverrir segir algengt að viðskiptavinir hafi orð á því hversu aðgengileg verslun hans er nú borið saman við hvernig aðgengi var á Laugaveginum skömmu áður en Herrahúsið flutti þaðan fyrir fullt og allt.

„Fyrir um viku kom hingað maður sem styðst við hækjur á ferðum sínum. Sá sagðist ekki hafa getað komist á Laugaveginn í langan tíma því hann finnur þar hvergi bílastæði og getur ekki gengið langan veg,“ segir Sverrir og bætir við að hann fái nú einnig til sín kúnnahóp frá stórum nærliggjandi fyrirtækjum í Ármúla. Slíkt hafi ekki verið raunin í miðbæ Reykjavíkur.

„Það eru bara svo margir sem hafa gefist upp á Laugaveginum, bæði verslunarmenn og viðskiptavinir, því aðgengi er orðið svo slæmt, vont að fá bílastæði og mikið um lokanir og þrengingar. Þú sérð þetta sjálfur – það eru yfir 40 auð rými á Laugavegi og nágrenni núna. Það er alveg svakalegt,“ segir Sverrir og heldur áfram: „Ég veit ekki hvernig þetta endar allt saman, en mér finnst þeir sem stjórna í borginni vera að rústa verslun við Laugaveg.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert