Menntun er stöðutákn. Að hafa gengið í skóla, framhaldsskóla eða háskóla, veitir fólki ákveðna virðingarstöðu í samfélaginu og þykir eftirsóknarvert. Þetta gildir fyrst og fremst um bóknám. Því er öðruvísi farið með starfstengt eða verklegt framhaldsskólanám. Hlutfallslega færri nemendur fara í starfsnám á Íslandi en í samanburðarlöndum. Það er skýrt með ofuráherslu á bóknám í samfélaginu, sem leiðir oft til þess að nemendur velja bóknám, þrátt fyrir meiri áhuga á hinu.
Tölfræðin er starfsnámsnemum ekki í hag. Þeir sem útskrifast úr bóklegu stúdentsnámi eru að meðaltali 21 árs gamlir. Úr starfsnámi eru þeir 26 ára gamlir. Þeir síðarnefndu eru sömuleiðis næstum því tvöfalt líklegri til að hverfa frá námi, af þeirri einu ástæðu að þeir eru í þessari gerð af námi.
Þetta kemur fram í máli Dr. Kristjönu Stellu Blöndal, dósents hjá félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild Háskóla Íslands. Hún segir að það sé gamall vandi að fá ungmenni til þess að velja starfsnám í framhaldsskólum. Þegar þangað er komið, sé þar að auki meira brottfall þaðan en úr bóklegum greinum og sömuleiðis sé fólkið að útskrifast mun síðar en bóknámsnemendur.
Átök sem snúa að því að fá fleiri í verklegt nám á framhaldsskólastigi hafa ekki hrifið. Þróunin er í öfuga átt. Árið 2000 voru 29% 16 ára stráka í framhaldsskóla í starfsnámi og 20% stelpna á sama aldri. Árið 2017 voru 18% sama hóps stráka í starfsnámi og 8% sama hóps stelpa. Í dag eru 10% ungs fólks, á aldrinum 15-24 ára, í starfsnámi, sem er tíu prósentustigum lægra hlutfall en meðaltalið í Evrópu, sem er um 20%.
Stella flutti erindi um þessi mál á málþingi Vísindafélags Íslands um nýsköpunarhæfni til framtíðar í íslensku menntakerfi á miðvikudaginn. Um það efni fjallaði hún út frá sjónarhorni starfsnáms í íslensku framhaldsskólakerfi. Hún byggði mál sitt um margt á víðfeðmri langtímarannsókn hennar og Jóns Torfa Jónassonar, sem náði til allra almennra framhaldsskóla árið 2007.
Stella segir að starfsnámsnemum fækki hlutfallslega á Íslandi, þrátt fyrir viðleitni til að snúa því við. Meðal skýringa er ofuráherslan á bóknám. „Þegar ungt fólk er að ljúka grunnskóla er það í veislum ekki spurt í hvaða nám það ætli, heldur í hvaða skóla það ætlar,“ segir Stella og segir þetta benda til þess að meiri áhersla sé lögð á virðingarstöðuna tengda náminu en námið sjálft.
Önnur skýring segir Stella að sé sú að fólk velur nám á óígrundaðan hátt. Margir sem hafa meiri áhuga á verklegum greinum velja samt bóknám vegna þess að þeir óttast að þeir loki leiðum ef þeir velja starfsnám. Á sama tíma þarf fólk að þekkja nokkuð vel til inni í menntakerfinu til þess að vita hvaða leiðir eru færar í starfsnámi, sem er þekking sem ekki allir búa yfir. Í stað þess að hennar sé aflað, eru farnar hefðbundnar leiðir.
Það er þrýstingur að velja bóknám, sem leiðir til þess að stór hópur nemenda sem er að velja sér nám, virðist gera það gegn raunverulegum áhuga sínum. Í rannsókninni sögðust tæpur helmingur nemenda í grunnskóla hafa meiri áhuga á verklegum greinum en bóklegum. Aðeins 14% ratar í starfsnám.
Óvissan um námsval er slæm fyrir nemendur. „Nemendur í starfsnámi voru almennt vissari um námsvalið sitt í framhaldsskóla. Það er fullt af fólki sem velur sér bóklegt nám, sem er ekki þar af heilum hug. Þau eru mun óvissari,“ segir hún. Þessir óvissu bóknámsnemendur sem sögðust oft hugsa um að skipta yfir í starfsnám langsamlega verst út úr könnunum um farsæld í námi.
Námsleg skuldbinding starfsnámsnema var betri en bóknámsnema sem kom fram í því að þeir voru líklegri til að hafa áhuga á náminu og sjá tilgang með því. Hins vegar er félagsleg skuldbinding starfsnemanna lakari. Þar er fólk að koma úr mismunandi aðstæðum og er því ólíklegra til að tengjast samnemendum og vera ánægt með félagslífið í skólanum.
Stella segir að bakgrunnur nemenda skipti máli. Þeir sem eiga háskólamenntaða foreldra eru líklegri til þess að fara sjálfir í bóklegt nám. Oft er starfsnám ekki einu sinni rætt, sem kemur fram í því að 60% ungmenna vissu ekki hvaða afstöðu foreldrar þeirra höfðu til starfsnáms þegar þau voru spurð en aðeins 14% vissu ekki hvaða afstöðu til bóklegs stúdentsprófs þeir höfðu. Flestir höfðu sem sagt fundið fyrir því að foreldrar þeirra vildu að þau kláruðu stúdentspróf.
Ekki aðeins er umræðan lítil um starfsnám inni á heimilum heldur eru sumir sem vita hreinlega ekkert hvað foreldrar sínir vinna við eða hafa lært. Þetta veldur vitanlega skorti á fyrirmyndum. „Stór hluti ungs fólks veit ekki aðeins ekki hvaða menntun foreldrar þeirra hafa, heldur vita þau einfaldlega ekkert við hvað þau starfa,“ segir Stella og segir að þetta komi ítrekað fram í rannsóknum.
Loks segir Stella að þáttur í því að svona fáir komi í starfsnám sé vanþekking á því hve fjölbreytt það er og hvernig það er byggt upp. Til dæmis viti ekki allir að það er tiltölulega greið leið að fá stúdentsskírteini út frá starfsnámi. Þannig lokar það engum leiðum.