Engir ráðherrar tóku þátt í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í gærkvöld. Þar fluttu þingmenn 24 ræður. „Eftir þennan þingvetur er það því nokkuð sérstakt að ekki hafi verið komið til móts við sanngjarnar og eðlilegar kröfur lífeyrisþega um bætta afkomu,“ sagði Anna Kolbrún Árnadóttir, þingflokksformaður Miðflokksins. Sagði hún það sæta furðu að enn væri verið að skerða krónu á móti krónu þrátt fyrir mikla samstöðu í þinginu um afnám skerðingarinnar.
„Vissulega er ekki sjálfgefið að samstarf, líkt og það sem við höfum nú í ríkisstjórn, gangi upp. Samstarfið hefur gengið vel, jafnvel vonum framar. Þetta nefni ég hér, í því ljósi að þegar horft er yfir þennan sal er ekki hægt að sjá að annað mynstur væri mögulegt,“ sagði Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, skaut fast á Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Dró hún í efa heilindi hennar sem vinstrimanns.
Sagði Oddný holan hljóm í málflutningi Katrínar um að vinstriflokkar í Evrópu ættu að sameinast um róttækar lausnir og að marka þyrfti djarfa, framsýna og sameinandi stefnu með áherslu á félagslegt réttlæti, kynjajafnrétti, grænt hagkerfi og alþjóðlegar kerfisbreytingar.
„Þegar þessi ríkisstjórn lagði af stað fyrir rúmu einu og hálfu ári voru óvissuteikn á lofti. Spennan í þjóðarbúskapnum dróst hraðar saman en spár gerðu ráð fyrir, óvissa ríkti á vinnumarkaði og svo raungerðist það sem margir höfðu spáð um langa hríð, að ein stærsta atvinnugreinin okkar, ferðaþjónustan, stendur nú frammi fyrir samdrætti,“ sagði Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG. Hún sagði Ísland standa vel og enginn þyrfti að óttast að við ráðum ekki við skammtímaáföll.
„Á undanförnum mánuðum hafa hneyksli og áfellisdómar dunið á Alþingi hver á eftir öðrum. Akstursgreiðslumálið, Klaustursmálið, óviðeigandi hegðun þingmanna og óviðeigandi pólitísk afskipti af siðareglumálum,“ sagði Halldóra Mogensen, varaformaður þingflokks Pírata. Þá ræddi hún sérstaklega traust til lýðræðislegra stofnana sem hefur verið fallandi og að traust á stjórnmálum hefði ekki aukist þrátt fyrir aukið gagnsæi og meira upplýsingaflæði.
Willum Þór Þórsson, varaformaður þingflokks Framsóknar, sagði lausnir á sviði húsnæðismála ofarlega á dagskrá ríkisstjórnarinnar og nefndi þar fyrstu kaup, nýtingu séreignarsparnaðar og endurskoðun verðtryggingar. Þá legði Framsóknarflokkurinn sérstaka áherslu á að óverðtryggð lán yrðu valkostur fyrir alla.
„Tilraunin með krónuna er fullreynd,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. „Við munum aldrei búa íslenskum tækni- og hugverkafyrirtækjum ásættanlegt rekstrarumhverfi með hana að vopni. Við munum heldur ekki skapa framtíðarkynslóðum þessa lands þau tækifæri sem þær eiga skilið, hagnýtingu góðrar menntunar eða samkeppnishæf lífskjör með svo kostnaðarsaman gjaldmiðil.“
„Hvernig væri það nú að útrýma saman þjóðarskömminni fátækt og halda utan um auðlindir okkar,“ spurði Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. Sagðist hún fullviss um það að ef raunverulegur vilji væri fyrir hendi gætu allir þingflokkar tekið höndum saman og tekið á fátækt á Íslandi.