Útlit er fyrir að á komandi skólaári verði metfjöldi leiðbeinenda við kennslu í grunnskólum á Íslandi. Þetta segir formaður Skólastjórafélags Íslands, Þorsteinn Sæberg, í samtali við Morgunblaðið, en erfiðlega gengur að ráða í auglýstar stöður í grunnskólum.
600 undanþáguumsóknir til kennslu fyrir næsta skólaár hafa borist undanþágunefnd grunnskóla. Staðan er mikið áhyggjuefni og mikilvægt er að bregðast við stöðunni sem fyrst. „Af hverju fer ungt fólk ekki að læra til kennara í dag?“ spyr Þorsteinn og segir hið augljósa vera launamálin, þó að málið snúist um marga þætti.
Vandinn varðandi skort á kennurum er ekki séríslenskur. Í Svíþjóð er horft upp á sömu þróun og hér á landi. Launamál og starfsumhverfi eru einnig umræðuefnið þarlendis.
Vandinn á Íslandi einskorðast ekki við kennarastöður því sífellt færri sækja um æðstu stöður í grunnskólum. „Það er af sem áður var þegar auglýstar voru stjórnendastöður í grunnskólum, þá höfðu menn úr nógu að velja,“ segir Þorsteinn.
Aftur eru það launamál sem eiga stóran þátt í áhugaleysi um skólastjórnendastöður en einnig mikið álag í starfi og aðstæður starfsins, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag.