Mörg ljót sár eftir utanvegaakstur blöstu við starfsmönnum Umhverfisstofnunar þegar þeir komu til starfa á friðlandinu að Fjallabaki í vor. Ólöglegur utanvegaakstur er ein mesta ógnin gegn verndargildi friðlandsins.
Neikvæð áhrif utanvegaaksturs eru margvísleg; ásýnd svæðisins versnar til muna, hjólförin skilja eftir rákir eða sár í gróðursverðinum sem getur tekið tugi ára að jafna sig. Það skapast kjöraðstæður fyrir vatnsrof sem veldur jarðvegsrofi og síðast en ekki síst hafa þessi ummerki neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna í óbyggðum, segir á vef Umhverfisstofnunar.
„Umhverfisstofnun hefur sl. ár ásamt fleiri aðilum staðið fyrir átaki í að reyna að sporna við þessum ósóma sem skilað nokkrum árangri. Almenningur og ferðaþjónustufyrirtæki eru meðvitaðri um alvarleika málsins og taka þátt í að sporna við og upplýsa um ólöglegan utanvegaakstur. Einnig hefur landvarsla verið aukin á hálendinu, en betur má ef duga skal. Landverðir starfa einungis yfir sumartímann í 3-4 mánuði á ári en ferðamenn fara um hálendið allt árið um kring. Drjúgur tími landvarða yfir sumartímann fer í eftirlit og lagfæringar á sárum eftir utanvegaakstur en fæstir þeirra sem valda skemmdunum eru gripnir á vettvangi.
Mikilvægt er að efla enn frekar fræðslu um neikvæð áhrif utanvegaaksturs og ná til gesta áður en lagt er upp í ferðalag um náttúru Íslands,“ segir enn fremur í fréttatilkynningu.