„Við erum mjög skýr með það og höfum fengið álit sérfræðinga sem telja flestir að fyrirvarana þurfi ekki einu sinni,“ svarar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður utanríkisnefndar Alþingis, er mbl.is leitar viðbragða hennar við fullyrðingu Arnars Þórs Jónssonar, dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur, um að umræddir fyrirvarar muni í gegnum EES-samningin ekki hafa neina þýðingu hyggist fjárfestar á annað borð leggja sæstreng milli Evrópu og Íslands.
„Við erum ekki aðilar að innri raforkumarkaðnum, sem er ákveðin staðreynd þar sem við erum ekki tengd. Síðan setjum við lagalegan fyrirvara eins og ráðlagt var af Stefáni Má og Friðriki Hirst. Þeir lagalegu fyrirvarar hafa síðan verið staðfestir af orkumálastjóra ESB sem og fulltrúum EFTA-ríkjanna í sameiginlegu EES-nefndinni,“ útskýrir Áslaug.
„Við lítum svo á að þetta hafi mikið þjóðréttarlegt og pólitískt gildi,“ segir hún.
Í færslu á Facebook á þriðjudag sagði Arnar Þór að fyrirvarar Alþingis muni „engu skipta þegar búið verður að fjármagna þennan sæstreng (hvort sem það verður innlent eða erlent fyrirtæki sem gerir það). Ástæðan er sú að ef íslenska ríkið reynir þá enn að standa í vegi fyrir því að strengurinn verði lagður mun verða höfðað samningsbrotamál gegn Íslandi. Íslenska ríkið mun augljóslega tapa því máli þar sem orka er vara, sbr. fjórfrelsisákvæðið um frjálst flæði á vörum.“
Áslaug segir Arnar Þór vera að tala um að leggja sæstreng til Íslands gegn vilja íslensku þjóðarinnar. „Það er ekki hægt, það er hvergi í þriðja orkupakkanum neitt um það að hægt sé að leggja slíkan sæstreng. Það er skýrt.“
Spurð hvort fjórfrelsisreglur EES geri það mögulega að verkum að óheimilt sé að banna lagningu sæstrengs, eins og fram hefur komið á vef atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins, segir hún ekki um bann að ræða.
„Við erum bara að festa það í sessi að það er ákvörðun þingsins og það getur ekki komið einhver utanaðkomandi aðili og og lagt hér sæstreng frekar en hann geti komið hingað og lagt veg. Þessum spurningum var öllum varpað upp í starfi nefndarinnar og fengin skýr svör má lesa í álitsgerð Skúla Magnússonar og Davíðs Þórs Björgvinssonar,“ svarar Áslaug.