Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að mörgum rangfærslum hafi verið haldið fram í umræðunni um þriðja orkupakkann sem hefði staðið yfir í 133 klukkustundir.
Undir dagskrárliðnum störf þingsins sagði hún að leiðin sem hafi verið lögð fram standist stjórnarskrá. Margoft hafi verið farið yfir það í utanríkismálanefnd.
Einnig lagði hún áherslu á að hluti af innleiðingunni núna sé að taka af öll tvímæli um að sæstrengur verði ekki lagður án samþykkis Alþingis og nefndi einnig að orkupakki 3 geri enga kröfu um einkavæðingu orkufyrirtækja.
Hún beindi því til þingmanna Miðflokksins að umræðu þeirra linni og að það hafi aðeins tekið norska stórþingið fjóra og hálfa klukkustund að ræða um sama mál.