Nokkur erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt vegna ölvunar og hávaða. Meðal annars var tilkynnt um nakinn mann í húsagarði í vesturbænum á fimmta tímanum í nótt. Ekki er vitað hvað manninum gekk til en Jónsmessan er ekki fyrr en 24. júní en það er gömul trú að mjög heilnæmt sé að velta sér nakinn upp úr dögginni á Jónsmessunótt. Geri menn það batna þeim allir sjúkdómar og þeim verður ekki misdægurt næsta árið á eftir.
Tólf ökumenn voru stöðvaðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og eða áfengis á höfuðborgarsvæðinu frá klukkan 17 í gær þangað til fimm í morgun.
Lögreglan handtók mann um þrjú í nótt fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu en hann hafði líka reynt að tálma störf lögreglu. Viðkomandi var látinn laus eftir viðræður á lögreglustöð.
Einn gistir fangageymslur og verður þar þangað til ástand hans skánar en hann var handtekinn fyrir að sparka í lögreglumann.
Eitt umferðaróhapp kom til kasta lögreglunnar í gærkvöldi og eins var kveikt í sinu í gærkvöldi við Heiðmerkurveg.