Segir þingnefnd sofa værum svefni

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra.
Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra. mbl.is/Rax

„Hér blasa við einhverjar brýnustu og mest krefjandi spurningar um eftirlit með opinberri stjórnsýslu og ráðherrum sem vaknað hafa eftir hrun. Og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis sefur enn værum svefni. Til hvers er nefndin?“ spyr Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, í pistli á vef Hringbrautar.

Tilefni spurningarinnar er meint athafnaleysi eftirlitsaðila, Samgöngustofu, vegna lausafjárvanda WOW air og sú skuldasöfnun sem flugfélagið fékk gagnvart Isavia, sem lýst er í bók Stefáns Einars Stefánssonar, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, um ris og fall WOW air.

Farið fram á úttekt

Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, segir í samtali við mbl.is að hún hafi innan umhverfis- og samgöngunefnd farið fram á stjórnsýsluúttekt vegna málsins, bæði hvað varðar eftirlitshlutverk Samgöngustofu og eftirgjöf Isavia með skuldasöfnun WOW air við félagið.

Hins vegar sé það áberandi að þegar Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, komi fyrir nefndina vísi hann á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra, undir þeim formerkjum að fjármálaráðuneytið fari með hlutafé ríkisins í Isavia, að sögn Helgu Völu.

Full ástæða sé til þess að skoða virkni eftirlitsaðila, að mati þingmannsins, sem segir lítið gagn í að starfrækja eftirlitsstofnanir ef staðan er sú að þær sinni ekki lögbundnu hlutverki sínu.

Um ásakanir um að nefndin sem hún stýrir sofi værum svefni, segir Helga Vala ekkert til fyrirtöðu að taka málefni til umfjöllunar í öðrum fastanefndum þingsins ef málið tengist málaflokkum sem heyra undir þær nefndir. Hún hafi farið fram á stjórnsýsluúttekt í umhverfis- og samgöngunefnd og þar sé málið nú.

Helga Vala Helgadóttir.
Helga Vala Helgadóttir. mbl.is/Hari

Óvirk neytendavernd

Þorsteinn segir í pistli sínum að viðskiptavinir flugfélaga eigi að njóta verndar laga sem kveða á um að eftirlitsaðila ber að tryggja að flugrekstraraðilar hafi nægilegt fé til þess að standa við skuldbindingar gagnvart viðskiptavinum sínum.

„Neytendur borga fyrir þjónustu marga mánuði fram í tímann. Þeir vita ekkert um fjárhagslega áhættu í þeim viðskiptum en seljandi veit allt um hana. Lagareglunum er ætlað að jafna þennan aðstöðumun. […]En til þess að verndin virki má neytandinn ekki vera í óvissu um það hvort stjórnvöld framkvæma lögin,“ segir hann.

Spyr Þorsteinn hvers vegna lögin voru ekki framkvæmd þar sem Samgöngustofu hafi verið ljóst allt frá síðari hluta ársins 2017 að alvarlegur lausafjárvandi hafi verið hjá WOW air. Þá segir hann álitmál hvort um sé að ræða vanrækslu eða ásetning um að aftengja gildandi lög.

Hugsanlega bætt stöðuna

„Rétt er að hafa í huga að framkvæmd gildandi laga hefði getað takmarkað verulega beint fjárhagstjón starfsmanna, viðskiptamanna og lífeyrissjóða svo ekki sé talað um almennt tap þjóðarbúsins. Það voru því ríkir almanna hagsmunir í húfi,“ útskýrir hann.

Jafnframt hefði hugsanlega verið hægt að hefjast handa við fjárhagslega endurskipulagningu í tíma ef lögum hefði verið fylgt, að mati Þorsteins. Þá spyr hann hvort viðskiptavinir Icelandair njóti verndar laganna eða ekki.

Taki ekki frí fyrr en málið sé upplýst

„Til viðbótar dregur bók Stefáns Einars fram að ekki hefur verið svarað með fullnægjandi hætti  hvort lánafyrirgreiðsla Ísavía byggðist á jafnræðisreglu. Geta öll flugfélög sem lenda í lausafjárvanda fengið lán þar? Vissi ráðherranefndin af þessari lánastarfsemi? Hafði hún samþykkt hana?“ spyr pistlahöfundurinn.

„Að réttu lagi ætti nefndin ekki að fá sumarfrí fyrr en hún hefur gefið þjóðinni svör við þessum spurningum,“ segir Þorsteinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka