Skemmdir eftir utanvegaakstur við Jarðböðin

Eins og myndin sýnir eru töluverðar skemmdir á jarðhitasvæðinu eftir …
Eins og myndin sýnir eru töluverðar skemmdir á jarðhitasvæðinu eftir jeppann. Ljósmynd/Aðsend

„Okkur finnst þetta ljótt,“ segir Sigurður Jónas Þorbergsson, einn landeigenda Reykjahlíðar, um utanvegaakstur jeppa skammt frá Jarðböðunum við Mývatn í dag. Jeppi með fimm erlendum ferðamönnum festist á jarðhitasvæðinu og skildi eftir sig ljót för.

Lögreglan á Akureyri staðfestir að utanvegaakstur við jarðböðin sé til rannsóknar og að töluvert miklar skemmdir hafi orðið á kaflanum sem bíllinn ók um áður en hann festi sig í leir. „Það verður sektað vegna þessa,“ sagði lögreglumaður á vakt í samtali við mbl.is og kvað málið nú í ferli.

Sigurður Jónas var í öðrum erindagjörðum er hann ók fram á bílinn, sem hafði farið út af veginum vestan við Námafjall og vestan við Bjarnarflag, en þar liggur afleggjari af Þjóðvegi eitt upp að jarðböðunum.

Maður frá dráttarfyrirtæki var þegar mættur á staðinn er Sigurð Jónas bar að. „Við héldum fyrst að þetta væri óhapp og þau hefðu lent út af, en síðan kom í ljós að þau komu úr hinni áttinni og höfðu síðan beygt og tekið sveigju þarna niður,“ segir hann. Jarðhiti er á svæðinu eins og áður sagði og því sökk bíllinn niður og festist.

Um hálftíma síðar kom lögreglan á Húsavík á vettvang og að lokum var svo kölluð til grafa en með hennar aðstoð tókst loks að ná bílnum upp og segir lögreglan í Facebook-færslu að engin aðstoð hafi verið „veitt við að losa bifreiðina fyrr en lögregla var komin á vettvang og hafði klárað rannsókn málsins“.

Miklar skemmdir urðu hins vegar á landinu, m.a. eftir gröfuna og þá skildi bíllinn eftir sig viðbótarskemmdir því eins og Sigurður Jónas bendir á gat hann ekki farið sömu leið til baka.

„Þetta er ásetningsbrot,“ segir hann. „Því þeir keyra upp veginn og taka svo beygju til vinstri og út af veginum.“

Hann segir ferðamennina ekki hafa viljað ræða við sig, en að sögn lögreglu gengust þeir við broti sínu.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert