„Varla gengið út í hið óendanlega“

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis.
Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formenn flokka á Alþingi funda nú um hvernig afgreiðslu þeirra mála sem liggja fyrir þinginu verður háttað. Það mun ekki skýrast fyrr en á fundi þingflokksformanna og forseta þingsins á morgun hvernig endanleg dagskrá þingsins verður, segir Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, í samtali við mbl.is.

„Dagskráin er bara sett upp með hefðbundnum hætti í ljósi aðstæðna,“ segir Steingrímur og bætir við að það mun vera lagt til við þingflokksformennina að taka fyrstu umræðu tveggja mála eftir óundirbúnar fyrirspurnir.

„Sérstaklega það fyrra, breytt fjármálastefna. Það er brýnt að koma henni áfram og til nefndar. Hitt málið er kjarabætur til öryrkja, ráðstöfun á þessum 2,9 milljörðum sem bíða geymdir í fjárlögum,“ útskýrir hann.

Eftir þessi mál er síðan þriðji orkupakkinn til umræðu. Spurður hvort talin sé þörf á að grípa til aðgerða til þess að takmarka málþóf í málinu skyldi það halda áfram, kveðst Steingrímur vona að ekki verði þörf á því. „Ég held að öllum sé ljóst að það getur varla gengið út í hið óendanlega óbreytt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert