Ritstjórn Fréttablaðsins gerðist brotleg við siðareglur Blaðamannafélags Íslands með forsíðufrétt undir fyrirsögninni „Auglýsa eftir brjóstamjólk handa huldubarni“ og telst brotið ámælisvert.
Þetta er úrskurður Blaðamannafélags Íslands, sem komst þó að þeirri niðurstöðu að blaðamaðurinn Sveinn Arnarson hafi ekki brotið siðareglur félagsins.
Fréttin birtist á forsíðu Fréttablaðsins 19. mars og taldi kærandi blaðamanninn hafa viðhaft meiðandi skrif og valdið fjölskyldu hans óþarfa áhyggjum og angist, sem brjóti gegn 3. grein siðareglna BÍ.
Fjölskyldan hafi þurft að glíma við alvarlega og lífsógnandi veikindi barns kæranda og það hafi valdi óþarfa sársauka að bendla neyð fjölskyldunnar við áhuga vaxtarræktarfólks á brjóstamjólk og gefa í skyn að ósk fjölskyldunnar til mömmuhópa á samfélagsmiðlum væri blekkingarleikur af hálfu vaxtarræktarfólks.
Afleiðingarnar hafi verið þær að margar mæður hafi hætt að gefa fjölskyldunni brjóstamjólk, sem dauðvona barnið hafi þurft á að halda.
Í úrskurði BÍ segir að túlka verði kæruna svo að hún nái einnig til ritstjórnar blaðsins sem hafi ekki fylgt málinu eftir og leiðrétt eftir að réttar upplýsingar voru komnar fram.
Í andsvörum blaðamanns og ritstjórnar Fréttablaðsins segir að allt sem komið hafi fram í fréttinni hafi verið á rökum reist og að hvorugur tveggja yfirmanna á Landspítalanum, sem rætt var við í fréttinni, hefðu kannast við að veikt barn þyrfti á mjólk að halda. Þá hafi annar þeirra tiltekið þann möguleika að einhverjir væru „að reyna að komast yfir brjóstamjólk í einhverjum öðrum tilgangi“.
Því hafi góðar heimildir verið að baki fréttinni, auk þess sem ekki hafi verið unnt að leita til aðstandenda barnsins þar sem ekki hafi verið vitað um hvaða barn hafi verið að ræða.
Blaðamannafélagið kemst að þeirri niðurstöðu að alvarleiki og viðkvæmni umfjöllunarefnisins hefði átt að gefa ritstjórn og blaðamanni Fréttablaðsins fullt tilefni til að taka sjónarmið kæranda, sem birtust á vef Vísis að kvöld 19. mars, upp hjá sér í prentútgáfu sem eftirfylgni við upprunalega frétt, enda þarna komið fram um hvaða fólk var að ræða og að brjóstamjólkuróskin tengdist ekki vaxtarræktarfólki með nokkrum hætti.
„Siðanefnd telur að með því að láta þetta ógert hafi ritstjórn Fréttablaðsins með ámælisverðum hætti gerst sek um óvönduð vinnubrögð og brot á 3. grein siðareglna BÍ.“