Þrír kennarar, sem sagt var upp störfum við Menntaskólann í Reykjavík í vor, ætla að kanna lögmæti uppsagnanna. Segja þeir uppsagnirnar vera geðþóttaákvörðun skólastjórnenda og leið þeirra til að losa sig við ákveðna starfsmenn.
Sigríður Helga Sverrisdóttir, einn kennaranna við MR sem var sagt upp störfum í vor, sagði í aðsendri grein í Morgunblaðinu um helgina að skólameistarar hafi í kjölfar styttingar framhaldsskólans í þrjú ár nýtt sér tækifærið til að segja upp fjölda kennara í skjóli skipulagsbreytinga.
Sex fastráðnum starfsmönnum var sagt upp við skólann í vor og 15 lausráðnir starfsmenn fengu ekki áframhaldandi ráðningu. Þrír af fastráðnu kennurunum áttu það sameiginlegt að hafa fyrr í vetur kvartað til menntamálaráðuneytis og Vinnueftirlits ríkisins vegna starfshátta skólameistara og eineltis innan skólans. „Tilviljun? Varla,“ skrifar Sigríður, sem er ein þremenninganna.
Í niðurstöðu úttektar menntamálaráðuneytisins segir að samskiptavandi sé til staðar innan skólans. „Við óskuðum eftir að fá inn í skólann óháðan aðila til að taka á þessum samskiptavanda en það var ekki vilji til þess hjá stjórnendum. Í staðinn að gera það losuðu þeir sig bara við okkur. En þessi samskiptavandi er enn til staðar,“ segir Sigríður í samtali við mbl.is.
Hún segir að einelti meðal starfsmanna skólans hafi verið áberandi frá því að nýr rektor tók við embætti fyrir tveimur árum. Ástandið hafi hins vegar versnað og hafi ótti og samkeppni innan kennaraliðsins einkennt vinnustaðinn. „Grímulaus barátta kennara fyrir stöðu sinni er orðin að ljótum leik, þar sem kennarar eru komnir í innbyrðis samkeppni og hika jafnvel ekki við að níða skóinn hver af öðrum ef því er að skipta, m.a. með endalausu baktali, slúðri, niðurrifi og einelti, í baráttu sinni við að halda sínu á kostnað hins,“ skrifar Sigríður t.d. í grein sinni. Sigríður hefur verið í veikindaleyfi í vetur sökum ástandsins og furðar hún sig á að henni hafi verið sagt upp í miðju veikindaleyfi.
Sigríður og fyrrverandi samkennarar hennar hafa leitað til Kennarasambands Íslands en ekki fengið þau viðbrögð sem óskað var eftir, en þeim var meðal annars neitað um aðgang að lögfræðingi sambandsins. „Ég hef margítrekað að fá aðgang að lögfræðingi Kennarasambandsins en formaðurinn neitaði mér um hann,“ segir Sigríður, sem er búin að ráða utanaðkomandi lögfræðing sem mun kanna réttmæti uppsagnanna.
„Lögfræðingurinn okkar hefur óskað eftir frekari gögnum frá skólanum og vill fá að sjá mat hinna starfsmannanna til að bera það saman við okkar því að allir hinir starfsmennirnir sem eru eftir í okkar deild eru sannarlega með minni menntun og minni reynslu en við. Við þurfum að komast að því hvernig rektor kemst að þessari niðurstöðu og svo í framhaldinu að kæra þessar uppsagnir.“
Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara, segir í samtali við mbl.is að hún geti ekki tjáð sig um einstök mál en að það sé í höndum formanna aðildarfélaganna að meta hver hefur rétt á aðgengi að lögfræðingi félagsins. Félagsmenn eru 10.500 talsins og segir hún það ekki ganga upp að félagsmenn taki sjálfir ákvörðun um hvort þeir eigi rétt á aðgangi að lögfræðingi félagsins.
„Það finnst öllum ósanngjarnt að vera sagt upp. Það verður að halda því til haga að við sem stéttarfélag getum bara lagt mat á hvort tilefnið hafi verið réttmætt og hvort að samanburðurinn á milli einstaklinga sé málefnalegur,“ segir Guðríður. Nokkrar uppsagnir eru til umfjöllunar hjá sambandinu þessa stundina að sögn Guðríðar.
Fyrir liggur að stöðugildum fækkar með styttingu framhaldsskólanáms en Guðríður segir að gögn sem sýna fækkun stöðugilda liggi fyrir í sumar. „Uppsagnir sem tengjast styttingunni eru svo sem ekkert skilgreindar sérstaklega, við erum bara með félagafjölda sem fer þá fækkandi. En ég verð að viðurkenna að þetta er ekki jafn mikið og ég átti von á.“
Menntaskólinn í Reykjavík er með síðustu framhaldsskólum á landinu til að stytta námstíma til stúdentsprófs úr fjórum árum í þrjú.
Í haust verða allir framhaldsskólar landsins með þriggja ára námsleið „Þetta er umbreytingarferli sem hefur átt sér stað frá 2015 en næsta haust verða allir skólar á Íslandi hreinir þriggja ára skólar og þá vænti ég þess að þetta séu síðustu uppsagnirnar sem við erum að sjá í vor,“ segir Guðríður.