Kominn rammi fyrir heilbrigðismálin

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundinum í dag.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra á blaðamannafundinum í dag. mbl.is/Hjörtur

„Þetta eru í raun og veru kannski miklu stærri tímamót en maður gerir sér grein fyrir í fyrstu lotu og þá erum við í rauninni komin með þennan ramma í kringum íslensku heilbrigðisþjónustuna sem er sambærilegur við það sem við sjáum í löndunum í kringum okkur,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra í samtali við mbl.is en hún kynnti á blaðamannafundi í dag nýsamþykkta heilbrigðisstefnu stjórnvalda til ársins 2030.

Svandís greindi frá því á fundinum að heilbrigðisstefnan hefði verið samþykkt nokkuð óvænt fyrir helgi í ljósi þess að tími þingsins hefði farið að undanförnu í að fjalla um eitt mál sem hefði stöðvað aðgreiðslu annarra. Vísaði hún þar til þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Stefnan hefði síðan verið samþykkt mótatkvæðalaust en 14 sátu hjá.

Vitum hvert við erum að fara

„Með þessari stefnu vitum við hvert við erum að fara og hvert við erum að hreyfa okkur,“ segir Svandís ennfremur. Með stefnunni væri kominn rammi sem síðan væri hægt að móta stefnur einstakra hluta heilbrigðisþjónustunnar innan. Meðal annars er lögð áhersla í stefnunni á aukinn sveigjanleika, aukinn hvata, betri upplýsingagjöf til sjúklinga og aðstandenda og upplýsta ákvörðun sjúklinga.

„Við erum núna komin raunverulega með þessa hugsun að við skiptum heilbrigðisþjónustunni í þrjú stig. Þetta eru hugtök sem margir þekkja en við höfum kannski ekki verið að beita þeim mjög markvisst. Við erum til dæmis alveg eftir að skrifa þau í heilbrigðislögin. Þá er fyrsta stigs þjónusta þjónusta heilsugæslunnar, þar sem þú kemur fyrst með heilbrigðisvandamál, og síðan er þriðja stigs þjónustan Landsspítalinn þar sem flóknustu aðgerðir og meðferðir fara fram. En þarna á milli er annars stigs þjónustan sem er í rauninni bæði heilbrigðisstofnanir úti um land, sjálfstætt starfandi sérfræðingar, geðheilsuteymi og aðrir aðilar,“ segir ráðherrann.

Svandís segir það hafa skipt miklu að hafa Birgi Jakobsson, aðstoðarmann sinn, með sér í þessari vinnu sem hefði gríðarlega yfirgripsmikla reynslu af heilbrigðismálum bæði hér innan lands sem og í Svíþjóð og Noregi, en Birgir er fyrrverandi landlæknir og var áður meðal annars forstjóri Karolinska sjúkrahússins í Stokkhólmi. „Birgir var alveg ómetanlegur í þessari vinnu og við að leggja þessar línur og var í rauninni ritstjóri stefnunnar,“ segir Svandís og bætir við.

„Þannig að ég er mjög ánægð í dag.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert