Spá snjókomu eða slyddu á fjallvegum

Það er sennilega ráðlegt að halda sig á suðurhelmingi landsins …
Það er sennilega ráðlegt að halda sig á suðurhelmingi landsins ef fólk hyggur á tjaldútilegur næstu daga. Þessi mynd er úr safni. Ljósmynd Einar Jónsson

Búast má við slyddu eða snjókomu á fjallvegum norðaustan- og austanlands í dag. Því er ráðlegt að athuga ástand vega áður en lagt er af stað. Síðdegis er spáð snörpum vindhviðum suðaustur af Vatnajökli en þær geta verið varasamar bifreiðum sem taka á sig mikinn vind eða eru með aftanívagna, segir í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands.

„Það er ríkjandi svöl norðanátt hjá okkur eins og undanfarið. Í dag verða víða 8-15 m/s og sums staðar hvassara suðaustan til á landinu. Þessu fylgir dálítil rigning eða slydda norðan- og austanlands, en bjartviðri á Suður- og Suðvesturlandi.

Svipað veður á morgun, þó heldur meiri úrkoma á norðaustanverðu landinu og minna sólskin suðvestanlands en í dag. Það er áfram útlit fyrir norðanátt á miðvikudag, með lítils háttar rigningu austanlands en léttskýjuðu á Suður- og Vesturlandi. Heldur hlýnandi veður,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næstu daga

Vaxandi norðanátt, víða 8-15 m/s í dag en sums staðar 13-18 SA-til síðdegis. Dálítil rigning eða slydda N- og A-lands, en bjart veður á S- og SV-landi. Hiti 2 til 14 stig, hlýjast S-lands.
Svipað veður á morgun, en bætir í úrkomu á NA-verðu landinu og þykknar upp SV-lands síðdegis.

Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Norðan 8-15 m/s, hvassast við austurströndina. Bjart með köflum S- og SV-lands, en rigning eða slydda á NA-verðu landinu. Hiti frá 2 stigum í innsveitum á NA-landi, upp í 14 stig S-lands. Dregur úr vindi á fimmtudag. 

Á föstudag:
Norðlæg átt og víða bjart veður, en dálítil væta A-lands. Hiti 5 til 15 stig, hlýjast á S- og V-landi. 

Á laugardag og sunnudag (hvítasunnudag):
Norðlæg eða breytileg átt, skýjað með köflum og skúrir á stöku stað. Hiti 8 til 15 stig.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert