Þúsund ára hefð víkur í þágu umhverfisins

Skálholtskirkja.
Skálholtskirkja. mbl.is/Árni Sæberg

„Landnýtingin verður önnur og hún verður í þágu þessarar baráttu gegn loftslagsbreytingum. Það er aðaláherslan hjá okkur núna,“ segir Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti. Í vikunni hættir síðasti ábúandi Skálholts og verður það í fyrsta sinn í ársþúsund sem enginn bóndi verður í Skálholti.

Samhliða því að ábúandi Skálholts hættir nú á dögum verður mjólkurframleiðslu í Skálholti einnig hætt, en um er að ræða einu lengstu samfelldu mjólkurframleiðslu í sögu Íslands.

„Það hefur nú verið mjólkurframleiðsla hérna í um 1140 ár. Þetta er landnámsjörð og hérna hafa alltaf verið kýr og það hefur að mér vitandi ekki verið hlé á því. Búskapurinn er mjög samofin sögu staðarins. Hérna voru kindur og fjárbúskapur sem var hætt vegna niðurskurðar og riðu á sínum tíma og þá var ákveðið að það kæmi aldrei aftur fé í Skálholt,“ segir Kristján.

Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholtsbiskupsdæmi.
Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholtsbiskupsdæmi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Kúabú ekki aðalstarfssemi kirkjunnar

Aðspurður hvers vegna ákveðið hafi verið að hætta mjólkurframleiðslu segir Kristján það þó ekki hafa verið vegna niðurskurðar líkt og við átti um fjárbúskapinn.

„Það er aðallega vegna þess að fjósið hefur verið á undanþágu og það hefði kostað töluverða fjármuni að laga það sem þarf að laga því kröfurnar eru orðnar svo miklar. Það eru miklar breytingar í mjólkurframleiðslu á landinu og þetta er allt að fara í ,róbótafjós’ eins og þeir kalla það bændurnir.

„Hér var kvótinn frekar lítill, um 80 þúsund lítrar og það þykir engin ósköp og ekki nóg til að lifa beint af því. Þetta var ekki svoleiðis að það væri lifibrauð fyrir ábúanda og líka mjög kostnaðarsamt fyrir kirkjumálasjóð og mjög umdeilt að kirkjan færi út í stórkostlegar fjárfestingar við að byggja fjós,“ segir Kristján.

„Við höfum rætt þetta mikið í kirkjunni og það var niðurstaðan í kirkjuráði að fara ekki út í endurbæturnar sem hefðu verið aðkallandi heldur láta bara gott heita með þetta. Það er ekki aðalstarfsemi kirkjunnar að vera með kúabú þó þetta sé auðvitað mjög dapurt.“

Bændur verið í Skálholti í árþúsund 

Kristján segir ábúanda hafa verið í Skálholti síðan ríkið gaf kirkjunni landið aftur árið 1963.

„Þetta er kostamikil jörð og óhemjumikið land niðri í Skálholtstungu sem hefur verið notað til hagbeitar og engjasláttar. Svo er mikill kostur að jörðin á sína eigin hitaveitu í Þorlákshver. Hér bjuggu bændur áður og árið 1963 afhendir ríkið kirkjunni Skálholt til varðveislu.“

„Síðan þá hefur verið ábúandi hérna, bóndi á vegum kirkjunnar sem hefur þá leigt jörðina af kirkjunni og haft atvinnu af henni. Svo var farið út í það að ábúandinn var ráðinn sem ráðsmaður líka og hefur séð hérna um byggingarnar og öryggisvörslu á staðnum.“

Líklega er þetta í fyrsta sinn síðan á Þjóðveldisöld sem enginn bóndi verður í Skálholti. Aðspurður hvort að þetta sé merki um að sögulegar hefðir í Skálholti séu að missa fótfestu sína segist Kristján hafa nokkrar áhyggjur af því að það sé raunin.

„Það er auðvitað slæmt að horfa á eftir bændum héðan en ég held að þetta sé líka spurning um ásýnd staðarins. Ef það á að vera ábúð hérna og stundaður landbúnaður þarf að hugsa sérstaklega um hana. Við erum að fá hingað 240.000 gesti á ári og það skiptir miklu máli hver ásýndin er. Við þurfum með einhverjum hætti að halda öllu hér í kring í rækt og góðu ástandi.“

Skálholtskirkja.
Skálholtskirkja. Sigurður Bogi Sævarsson

Vilja nýta landið í þágu umhverfisins 

Þá segir Kristján að Skálholt ætli að nýta jörðina öðruvísi en gert hefur verið síðustu ár og aldir. Nú færist áherslan frá landbúnaði yfir í nýtingu landsins í þágu umhverfisins og verða síðustu mjólkurkýr Skálholts til sölu fram á föstudag.

„Jörðin sjálf hefur verið að breytast svolítið. Það er verið að endurheimta votlendi, fylla upp í skurði og mikið af því. Skálholtstungan er að verða stórkostlegt friðland fugla og við höfum gert samning við Skóræktarfélag Íslands og hérna verður plantað skógi fyrir ofan þjóðveginn í landi Skálholts sem verður til kolefnisjöfnunnar. Þetta eru líka landnytjar.

„Með breyttum tímum og þessum ákvörðunum þá skiptir þetta líka mjög miklu máli. Þetta verður kannski ásýnd Skálholts í framtíðinni, að vera gróðurvin og náttúruperla.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert