Bréfin litin alvarlegum augum

Dómsmálaráðuneytið telur að framsetning bréfa sem Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri ritaði til þeirra Björns Jóns Bragasonar sagnfræðings og Sigurðar K. Kolbeinssonar, þáttarstjórnanda á sjónvarpsstöðinni Hringbraut, í mars á síðasta ári þar sem umfjöllun í bók Björns Jóns um gjaldeyriseftirlit Seðlabankans og sjónvarpsþáttar um sama efni var gagnrýnd, hafi verið ámælisverð.

Fjallað var um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2 en tilefni bréfanna voru ummæli sem höfð voru eftir Valtý Sigurðssyni, þáverandi ríkissaksóknara, að efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra, sem nú hefur verið lögð niður, „hafi um árabil skort faglega yfirstjórn og metnað“.

Eftir að hafa óskað eftir fundi um málið með þeim Birni Jóni og Sigurði án árangurs sendi Haraldur bréfin, sem einnig voru undirrituð af þeim Öldu Hrönn Jóhannsdóttur, fyrrverandi saksóknara efnahagsbrotadeildar og Guðmundi Guðjónssyni, fyrrverandi rannsóknarlögreglumanni hjá ríkislögreglustjóra.

Þar voru þeir Björn Jón og Sigurður, samkvæmt fréttinni, sakaðir um að bera ábyrgð á „ólögmætri meingerð“ gagnvart þeim sem umfjöllunin beindist gegn en bréfin voru rituð á bréfsefni embættis ríkislögreglustjóra.

Þeir Björn Jón og Sigurður kvörtuðu til umboðsmanns Alþingis vegna málsins sem hafði samband við dómsmálaráðuneytið sem hóf athugun á málinu. Ráðuneytið kemst að þeirri niðurstöðu að framsetning bréfanna hafi verið villandi og skapað óvissu fyrir viðtakendur þeirra.

Þá hafi bréfin varið til þess fallin að rýra traust á embætti ríkislögreglustjóra. Litið sé alvarlegum augum á það að Ríkislögreglustjóri sendi borgurum bréf með fullyrðingum um ólögmæta háttsemi án þess að það fáist séð að lögmætur grundvöllur sé fyrir því.

Ráðuneytið taldi þó ekki ástæðu til áminningar vegna málsins vegna bréfs Haraldar til þess þess efnis að í framtíðinni yrði gætt að orðalagi í málum sem þessum. Þá var haft eftir Haraldi í fréttinni að embættið hefði beðið þá Björn Jón og Sigurð velvirðingar á umræddum ummælum í bréfum þess til þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert