„Ég er í rusli“

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ljáði á Alþingi máls á „ófremdarástandi“ sem hún sagði að ríkti í rusl- og sorpmálum á landinu og lagði til að ríkisvaldið „taki yfir þetta mikilvæga umhverfismál“ af sveitarfélögum.

„Ég er í rusli í dag,“ sagði Bryndís undir dagskrárliðnum störf þingsins og nefndi að hræðilegt væri að sjá myndir frá Fíflholti á Mýrum þar sem sorp hafi fokið víða. Einnig nefndi hún urðunarstaðinn á Álfsnesi og þá lyktarmengun sem hefur lengi truflað íbúa Mosfellsbæjar.

Bryndís bætti við að ný gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi muni draga verulega úr urðun. Samt þurfi áfram að urða það sem ekki passar þar inn, auk þess sem koma þurfi upp öflugri brennslustöð til að taka á móti úrgangi sem ekki er hægt að endurvinna eða eyða með öðrum hætti.

Á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi.
Á urðunarstað Sorpu í Álfsnesi. mbl.is/Þorkell Þorkelsson

„Ég óttast mjög að í úrvinnslumálum okkar vanti heildaryfirsýn þar sem verkefnið er á herðum sveitarfélaga og því miður hefur ekki, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, tekist nógu vel upp með samstarf milli landshluta í þessum efnum,“ sagði hún.

„Er ekki skynsamlegt að ríkisvaldið taki yfir þetta mikilvæga umhverfismál og tryggi að hér á landi séu til staðar umhverfisvænar lausnir fyrir úrganginn okkar?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert