Inga Sæland, þingmaður Flokks fólksins, og Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, áttu í hörðum orðaskiptum á Alþingi í morgun í umræðu um frumvarp félags- og barnamálaráðherra um félagslega aðstoð og almannatryggingar.
Inga Sæland hóf ræðu sína á því að segja að í kjölfar hrunsins hafi verið ákveðið að seilast í vasa þeirra sem höllustum fæti stóðu í samfélaginu. Það hafi verið í höndum vinstri flokkanna, velferðarstjórnarinnar, að krónu á móti krónu-skerðingin var sett á.
Hún sagði hóp öryrkja vera með 212 þúsund krónur í laun á mánuði og að enn sé verið að skattleggja sára fátækt. „Á meðan við horfum hér á forstjóra og fyrirmenn með allt að því tæpar 20 milljónir króna á mánuði í laun og okkur finnst það bara allt í lagi er það ekki?“ sagði Inga.
Hún benti á nýfallinn dóm í Landsrétti þar sem sjáist svart á hvítu hvað sé raunverulega verið að skerða. „Ég stend hér fyrir þjóðfélagshópinn sem ég er búin að tilheyra alla mína ævi. Að þurfa að horfa á þessa lítilsvirðingu gagnvart þessum þjóðfélagshópi sínkt og heilagt hér á þessu háa Alþingi, það er alveg ótrúlegt,“ sagði hún klökk. Bætti hún því við að hún hafi ekki „farið að grenja“ síðan í beinni útsendingu fyrir síðasta kjördag og sagði í framhaldinu að krónu á móti krónu-skerðing sé ólögleg fátækragilda.
Steingrímur veitti ræðu hennar andsvar og sagðist ekki ætla að sitja þegjandi undir rangfærslum og óhróðri um ríkisstjórn hans og Jóhönnu Sigurðardóttur. Rangt sé að stjórnin hafi tekið upp krónu á móti krónu-skerðingu.
„Það sem rétt er, er að Jóhanna Sigurðardóttir sem félagsmálaráðherra kom á sérstakri uppbót á lífeyri vegna framfærslu og það þótti þá stórkostleg réttarbót og þá var verið að bæta kjör þess hóps sem lakast var settur og fáir virðast muna eftir í dag,“ sagði hann.
Steingrímur furðaði sig á því að það væri allt í einu orðið stórkostlegt ranglæti að þessi sérstaka uppbót ofan á aðrar almennar greiðslur kerfisins hafi verið komið á. Vissulega hafi hún verið tekjutengd og vikið á móti öðrum tekjum. Verið hafi verið að reyna að nota takmarkaða fjármuni til að aðstoða þann hluta öryrkja sem var lakast settur.
„Menn þurfa aðeins að kunna hlutina áður en þeir taka upp í sig stór orð og á meðan ég er hér á þingi og hef málfrelsi þá sit ég ekki þegjandi undir svona löguðu. Jóhanna Sigurðardóttir er einn merkasti félagsmálaráðherra þessara þjóðar og á annað og betra skilið frá kynsystrum sínum.“
Steingrímur sagðist styðja frumvarp félags- og barnamálaráðherra en spurði jafnframt hver væri að tala máli þeirra sem væru lakast settir í dag. Öll umræðan snúist um að hafa eigi allar greiðslur óskertar úr almannatryggingakerfinu jafnvel án tillits til hvaða tekjur menn hafa. „Ef við erum að ráðstafa 2,9 milljörðum króna hefði kannski eitthvað af því átt að fara til allra lakast setta hópsins því þetta er ekki hann. Þetta er hópur sem hefur aðrar tekjur.“
Inga steig í framhaldinu í pontu: „Ef háttvirtur þingmaður hefur ekki tekið eftir því að ég stend hér sem málsvari þeirra sem höllustum fæti standa þá veit ég ekki hvort það er út af því að háttvirtur þingmaður er orðinn heyrnarskertur þótt ég sé þá sjónlaus.“