„Það var þarna ullarlarf út um allt,“ segir Jóhanna Arnbjörnsdóttir, sem varð vitni að því að tveir hundar réðust á hrútlamb á Mýrum í Austur-Skaftafellsýslu. Jóhanna segir í samtali við mbl.is ekki hafa tekist að skoða ástand fórnarlambsins þar sem það hafi stokkið af stað þegar tækifæri gafst.
Jóhanna segist hafa verið að aðstoða móður sína við að bera á pallinn um hálfsex að laugardagskvöldi þegar atvikið átti sér stað. Hún segir hundana tvo hafa sloppið úr hundarækt sem er rekin af nágranna móður hennar. Þá hafi henni blöskrað svo að hún hafi tilkynnt atvikið til lögreglu. „Þetta er bara dýraníð.“
Jóhanna hefur sent mbl.is nokkur myndbönd af atvikinu og í einu þeirra sést eigandi hundanna mæta á svæðið til þess að stöðva þá. „Þér kemur ekkert við hvað gerist inni á mínu landi,“ heyrist eigandinn segja. Svo segir hann: „Þetta var slys, þetta var ekki ætlunin.“
Þorsteinn Bergsson, dýraeftirlitsmaður hjá Matvælastofnun, staðfestir í samtali við mbl.is að lögreglan á Höfn hafi haft samband við stofnunina vegna málsins. „Við munum hafa samband við eiganda hundanna.“
„Þetta er náttúrulega ill meðferð á sauðfé og varðar þá við reglugerð um meðferð sauðfjár. Þannig að ég hugsa að við munum skoða þetta, ég held það muni fara þannig að eigandinn fái áminningu,“ segir Þorsteinn.
Spurður um framhaldið, svarar hann: „Það má nú kannski sjá það út úr myndböndunum að þetta hafi verið einhvers konar óhapp og að þetta hafi ekki verið nein ætlun mannsins að svona færi.“ Jafnframt sé enn óljóst hvert umfang áverka er „og líka hvað þetta stóð lengi yfir, þetta er alveg hræðilegt að sjá þetta,“ segir Þorsteinn.