Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður Vinstri grænna, telur að tími sé kominn til að stjórnvöld leggi á flatt loftslagsgjald, til hliðar við kolefnisgjaldið, til að stemma stigu við loftslagsvandanum.
Gjaldið verði annað hvort lagt á alla skattgreiðendur í landinu eða á notendur jarðefnaeldsneytis, eins og til dæmis flugfélög, bílaleigur, einkaaðila og fyrirtæki.
„Ég bendi á að 1.000 kr. á 250.000 gjaldendur gefa okkur fjórðung úr milljarði, 250 milljónir króna á ári. Þannig að 2.000 krónur, 3.000 krónur…menn sjá glögglega hvert ég er að fara,“ sagði Ari Trausti á Alþingi undir dagskrárliðnum störf þingsins.
„Ég held að sá tími sé kominn núna, tíu árum áður en við eigum að standa við Parísarsamkomulagið, að við förum virkilega að íhuga þetta. Menn kvarta oft undan sköttum en þetta væri ákaflega jákvæður skattur. Svo að ég segi við ykkur öll hér: Hugsið málið með mér,“ sagði hann.