Taugasjúkdómurinn sem greindist í fyrsta skipti í hrossum hér á landi nýverið er hvorki smitandi né talinn arfgengur. Ætla má að hættan á að fleiri tilfelli greinast sé að mestu gengin yfir á þessu ári en þó er hætta á að sjúkdómurinn komi upp víðar á landinu í framtíðinni. Rannsókn er hafin á sjúkdómnum hér á landi og kemur meðal annars teymi frá hinum Norðurlöndunum einnig að þeirri vinnu, að sögn Sigríðar Björnsdóttur, dýralæknis hrossasjúkdóma hjá MAST.
„Þetta er gríðarlegt tjón og mikið áfall að lenda í þessu,“ segir Sigríður. Sjúkdómurinn greindist á stóru hrossaræktarbúi á Norðurlandi eystra. Fella hefur þurft sjö hross og eitt fannst dautt. Greinileg einkenni komu fram í 22 hrossum á aldrinum 2-7 vetra. Hrossin voru öll á gjöf úti. Áfram verður fylgst með hrossunum en engin sérstök meðhöndlun er til við sjúkdómnum enda læknast hann af sjálfu sér. Hvíld í nokkra mánuði og allt að heilu ári er nauðsynleg.
Þegar sjúkdómurinn kom upp fyrir þremur vikum var í fyrstu talið að um hræeitrun væri að ræða en fljótlega kom í ljós að svo var ekki. Þegar í ljós kom að um þennan taugasjúkdóm var að ræða var einangrun aflétt því þetta er ekki smitsjúkdómur.
Helsta einkennið er vöðvaslappleiki í afturhluta líkamans sem leiðir til þess að hestarnir missa öðru hverju undan sér afturfæturna, niður á afturfótakjúkurnar. Hestarnir eru með fullri meðvitund, hafa góða matarlyst og sýna eðlilegt atferli að mestu leyti. Í alvarlegum tilfellum leggjast hrossin fyrir og nauðsynlegt getur verið að aflífa þau. Einkennin í hrossunum svipa til Guillain-Barrés-heilkennis hjá fólki.
Hún segir mikilvægt að hestaeigendur geri sér grein fyrir að þessi sjúkdómur sé til og að þeir séu vakandi fyrir einkennum. „Það er engin ástæða til að óttast. Það er ekki til nokkurs gagns. Eins og er er ekkert til sem gæti verið fyrirbyggjandi,“ segir hún.
Sjúkdómurinn tengist líklega rúlluheyi því hrossin sem veikjast hafa alla jafna verið fóðruð á rúlluheyi af sama slætti á sama túni. „Hins vegar eru mörg hross sem fengu þetta hey og sýna engin einkenni,“ segir Sigríður. Á hinum Norðurlöndunum hefur það sama verið upp á teningnum, þ.e.a.s. sjúkdómurinn tengist heyi.
Þrátt fyrir að sjúkdómurinn hafi mikið verið rannsakaður bæði í Noregi og Svíþjóð á þeim 25 árum frá því hann greindist fyrst er ekki vitað um orsakirnar. „Sjúkdómurinn er mikið rannsakaður og búið að útiloka margt. Honum hefur verið lýst vel í faraldsfræðinni. Það er búið að leita logandi ljósi að öllu, t.d. eitruðum plöntum,“ segir Sigríður.
Sjúkdómurinn hefur oftast greinst í Noregi en einnig eru mörg tilfelli í Svíþjóð. Í Finnlandi er hann fátíður. Hross af öllum hestakynjum hafa greinst með hann. „Hvernig stendur á því að þessi skilyrði skapist hér hef ég ekki skýringar á. Kannski verður þetta hér eins og í Finnlandi, að þetta sé sjaldgæft. Ég veit ekki hvernig þetta mun þróast hér á landi,“ segir Sigríður. Hún bendir á að þegar sjúkdómur kemur upp í nýju landi felast í því tækifæri til að rannsaka hann.
Hún bendir á að þrátt fyrir að þessi sjúkdómur hafi greinst hér á landi í fyrsta skipti segir hún ekki útilokað að hann hafi komið hér upp áður. „Þetta er nýtt að það greinast svona mörg hross á einum bæ,“ segir Sigríður.
„Ég er nokkuð viss um að það koma ekki fleiri tilfelli upp í vor. Vegna þess að þetta er árstíðabundinn sjúkdómur. Hann kemur upp seinni hluta vetrar og fram á vorið. Það virðist losna um þetta þegar hross fara á beit,“ segir Sigríður.
Tilraunastöðin á Keldum sér um ákveðna hluti rannsóknarinnar og einnig eru sýni send út til frekari rannsóknar. Á næstu dögum koma erlendir kollegar Sigríðar til landsins og fara yfir stöðuna.