Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, segir að hár launakostnaður íslenskra atvinnurekenda haldist í hendur við góð lífsgæði í landinu. Sársaukamörkin séu mismunandi eftir fyrirtækjum en annars sé launaliðurinn úrlausnarefni sem samningsaðilar verði að ráða fram úr sjálfir eftir þeim leikreglum sem gilda.
Skúli Mogensen stofnandi WOW air sagði í kvöldfréttum RÚV í fyrradag að ef endurreisn flugfélagsins ætti að ganga upp „þyrftu að vera opnari tækifæri til að nota erlenda starfsmenn heldur en hefur verið og hefur tíðkast.“ Kjarasamningar þyrftu að vera öðruvísi samsettir.
„Flugfélög eru auðvitað í mikilli alþjóðlegri samkeppni þar sem launakostnaður er lægri en hér. Við vitum að launakostnaður er hærri hér en hérna eru líka betri lífsgæði. Á móti kemur að íslenskur vinnumarkaður er frekar sveigjanlegur, sem kemur atvinnulífinu til góða. Það er mismunandi eftir fyrirtækjum hvar sársaukamörkin eru varðandi launakostnað en samningsaðilar verða að ráða fram úr þessu sjálfir eftir þeim leikreglum sem gilda,“ segir Þórdís Kolbrún í samtali við mbl.is um málið.
Þórdís Kolbrún segist vera talsmaður samkeppni og að hún sé neytendum til góða, spurð um það hvort æskilegt sé að hafa aðeins eitt alþjóðlegt flugfélag starfandi á landinu, það er Icelandair.
Hún sagði að mögulega mætti koma til móts við flugfélögin í rekstrarumhverfi á flugvellinum. Isavia er ríkisrekið. „Það sem þarf að horfa til er auðvitað samkeppnisstaða flugvallarins, lendingargjöld og annar kostnaður fyrir flugfélögin. Þar skiptir máli hvernig Isavia vinnur sína vinnu og ég veit að þar er verið endurskoða þessa þætti, það er hvernig gera má flugvöllinn samkeppnishæfari en hann er í dag,“ segir Þórdís Kolbrún.
Stjórnvöld væru að horfa til þess að örva sætaframboð til Íslands en ljóst sé að erfitt hafi verið að bregðast við fyrir sumarið. „Við vissum að þegar flugfélagið WOW hvarf af markaði gerðist það skömmu fyrir sumarið, þannig að það var nánast ómögulegt fyrir önnur flugfélög að grípa til ráðstafana,“ segir Þórdís. Allt hafi það samverkandi áhrif, að minnkað framboð geti haft keðjuverkandi áhrif á önnur flugfélög sem þegar fljúga til landsins.
„Það hvernig við getum aukið sætaframboð er auðvitað verkefni. Isavia hefur þar lykilhlutverki að gegna. Ef við færum í sérstakt átak fyrir veturinn til að reyna að sækja fleiri ferðamenn þarf það að taka mið af því framboði sem er til staðar í flugi,“ segir Þórdís Kolbrún.
„Þegar rætt er um viðbrögð vegna samdráttar þarf að vera alveg ljóst að vandinn er miklu frekar framboðsvandi en eftirspurnarvandi,“ segir Þórdís Kolbrún. Framboð á flugsætum hafi minnkað verulega og það hafi áhrif. Aðgerðir sem stjórnvöld kynnu að fara í þyrftu að vera í takt við það framboð sem er til staðar.
„Ég er mjög meðvituð um að næstu mánuðir, mögulega misseri, verða þyngri en við höfum séð í langan tíma. Til lengri tíma er ég bjartsýn,“ segir Þórdís Kolbrún. „En næstu mánuði er ljóst að þessi samdráttur mun flýta fyrir einhvers konar hagræðingu innan greinarinnar,“ segir hún.