Er rafmagnsframleiðsla þjónusta?

Beðið er eftir viðbrögðum ESA og hvort metið verður svo …
Beðið er eftir viðbrögðum ESA og hvort metið verður svo að heimilt sé að lögfesta opinbert eignarhald virkjanna og nýtingarréttar vatnsfalla. mbl.is/RAX

Íslenskum stjórnvöldum gæti orðið óheimilt að koma í veg fyrir útboð nýtingarréttar og rekstur vatnsaflsvirkjanna með lögfestingu opinbers eignarhalds, fari eftirlitsstofnun EFTA, ESA, með nýtingarréttarfyrirkomulag norðmanna fyrir EFTA-dómstólinn og hann dæmi fyrirkomulagið ólögmætt.

Eins og fram kom í umfjöllun Morgunblaðsins um miðjan maí höfðaði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í mars samningsbrotamál gegn átta aðildarríkjum á grundvelli þjónustutilskipuninni og reglugerð um opinber innkaup, þar sem krafist er að nýtingarréttur vatnsfalla og rekstur virkjana verði boðinn út.

Í erindi til íslenskra stjórnvalda árið 2016 fer ESA fram á að krafist verði markaðsverð fyrir nýtingarrétt með sama hætti og í Evrópu.

Lokuðu á einkaaðila

Upphaflega miðaði norsk löggjöf við að eignarhald og nýtingarréttur vatnsfalla og vatnsaflsvirkjanna yrði ávallt í opinberri eigu. Var í gildi endurgjöf (no. hjemfall) sem hafði í för með sér að einkaaðilar sem byggðu og ráku vatnsaflsvirkjanir myndu afhenda norska ríkinu umrædda eign eftir að samningstími samninga um nýtingu við hið opinbera rann út.

Þetta fyrirkomulag var hins vegar fellt úr gildi með dómi EFTA-dómstólsins árið 2007 sem taldi fyrirkomulagi brjóta gegn ákvæðum EES-samningsins. Viðbrögð norðmanna var að þrengja löggjöfina enn meira með því að krefjast að allur nýtingarréttur og virkjanir yrðu að vera í eigu félaga þar sem ríki eða sveitarfélög væru eigendur meirihluta hlutafés.

mbl.is/Sigurður Bogi

Nýting náttúruauðlinda ekki þjónusta

ESA gerði 30. apríl þessa árs athugasemd við þetta fyrirkomulag, að því er fram kemur í umfjöllun ABC Nyheter. Er þetta í takti við ákvörðun framkvæmdastjórn ESB um að höfða samningsbrotamál.

Þá krefst ESA skýringa á því hvernig ráðstöfun nýtingarréttar vatnsfalla og rekstur virkjanna er háttað, jafnframt hvers vegna réttindin og rekstur virkjana sé ekki boðin út innan EES-svæðisins á grundvelli þjónustutilskipunar Evrópusambandsins.

Í svari norskra stjórnvalda kemur fram að þau telja að um sé að ræða nýtingu náttúruauðlinda en ekki þjónustu og að ákvæði tilskipunarinnar eigi þess vegna ekki við. Telji ESA svar norðmanna ekki fullnægjandi fer málið fyrir EFTA-dómstólinn

Ekki er vitað hver niðurstaða þessa máls verður, en líklega mun hún hafa áhrif á það hvort íslenskum stjórnvöldum verður heimilt að takmarka eignarhald einkaaðila til þess að koma í veg fyrir að nýtingarréttur vatnsfalla og rekstur virkjana verður boðin út á EES-svæðinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert