Líkamsárás, þyrluslys og umferðarþungi

Umferð um Suðurlandsveg í Ölfusi og inn á Selfoss gengur …
Umferð um Suðurlandsveg í Ölfusi og inn á Selfoss gengur mjög hægt og eru vegfarendur beðnir um að sýna tillitssemi við þessar aðstæður. mbl.is/Sigurður Bogi

Hraðakstur, akstur undir áhrifum fíkniefna, þyrluslys, líkamsárás og umferðareftirlit hafa verið á meðal verkefna lögreglunnar á Suðurlandi þar sem af er helginni. Lögreglan hefur því haft í nógu að snúast, enda veður gott með eindæmum og fjölmargir sem hafa lagt leið sína á tjaldsvæði, ferðamannastaði og í sumarhúsabyggðir í umdæminu, líkt og fram kemur á Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurlandi. 

Alls hafa 29 ökurmenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur og sá sem ók hraðast mældist á 140 kílómetra hraða á klukkustund. 

Fimm manns gistu fangageymslur lögreglu á Selfossi í nótt. Ein líkamsárás kom inn á borð lögreglu og nokkuð hefur verið um útköll í tengslum við bæjarhátíðina Kótilettuna sem fram fer á Selfossi um helgina. Útköllin tengjast til að mynda ástands fólks vegna áfengis- og vímuefnaneyslu. Engin alvarleg eða stórfelld mál hafa þó komið til kasta lögreglu í tengslum við skemmtanahald og er samdóma álit manna að hátíðin hafi farið vel fram til þessa, að því er fram kemur í færslu lögreglunnar. 

Fjöldi fólks er samankominn á Selfossi þar sem útihátíðin Kótelettan fer fram. Tjaldsvæði á Selfossi og í nálægum sveitarfélögum eru þéttsetin og sækja margir þá viðburði sem eru í boði á hátíðinni. Umferð um Suðurlandsveg í Ölfusi og inn á Selfoss gengur þar af leiðandi mjög hægt og eru vegfarendur beðnir um að sýna tillitssemi við þessar aðstæður. Að sama skapi er ökumönnum bent á að nýta sér veginn um Þrengsli og Eyrarbakkaveg til að dreifa umferðarálaginu. Vegfarendum sem ætla í uppsveitir Árnessýslu er bent á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

Minniháttar þyrluslys

Um hádegi í dag barst lögreglu tilkynning um litla þyrlu (fis) sem hafði hlekkst á í lendingu skammt frá Þingvöllum. Voru tveir aðilar í fisinu en sakaði ekki. Rannsóknarnefnd flugslysa var kvödd á vettvang og annast rannsókn ásamt lögreglu.

Þá barst lögreglu tilkynning um mann sem fallið hafði fram af hengju í námunda við Kerlingafjöll. Davíð Már Björgvinsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir í samtali við mbl.is að hæsta viðbúnaðarstig hafi verið um tíma vegna útkallsins, en allt dregið til baka um tuttugu mínútum eftir að útkall barst þegar í ljós kom að tilkynningin var ekki á rökum reist. Björgunarsveitir fóru hins vegar í útkall síðdegis vegna fótbrotins einstaklings í Reykjadal. 

Lögreglan segir fólki að njóta blíðunnar en að koma heil heim. Ökumenn eru hvattir til að gefa sér góðan tíma í ferðalög milli staða og taka mið af umferðarþunga sem er á vegum embættisins. Ökumenn eru sérstaklega beðnir um að huga að bílbeltanotkun sinni og farþega sem og að gefa farsímum frí meðan á akstri stendur.

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert