Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á vakt hjá Veðurstofunni, segir að hægt sé að gleðjast yfir veðurspá næstu viku en landsmenn viti að spáin sé fljót að breytast.
Það virðist stefna í hæð yfir landinu með hlýju lofti í vikunni. Að öllum líkindum fer hiti yfir 20 stig og ef bestu spár ganga eftir gæti hitinn farið í 25 til 26 stig á miðvikudag, fimmtudag og föstudag.
Helga segir að íbúar á norðaustanverðu landinu ættu að finna fyrir hlýnandi veðri eftir helgi og reikna megi með þurru og björtu veðri á öllu landinu í næstu viku, víða verði léttskýjað.