Rúmlega 650 manns tóku í gær þátt í Bláa lóns þrautinni, en um er að ræða eina fjölmennustu hjólakeppni ársins þar sem hjólað er frá Ásvallalaug upp Krýsuvíkurveg og Djúpavatnsleið áður en komið er á Suðurstrandarveg, farið í gegnum Grindavík og að Bláa lóninu þar sem keppnin endar. Að lokum geta keppendur skellt sér í böðin til að skola af sér svita og ryk, en um er að ræða fjallahjólakeppni, þar sem góður hluti leiðarinnar er á grófum malar- eða moldarstígum.
Í ár kom Ingvar Ómarsson, núverandi Íslandsmeistari í bæði fjallahjólreiðum og götuhjólreiðum, fyrstur í mark á tímanum 1:38:28 eftir harða baráttu við Kristinn Jónsson, sem kom tveimur sekúndum seinna í markið, og Hafstein Ægi Geirsson, sem varð þriðji, rúmlega hálfri mínútu á eftir Ingvari.
Karen Axelsdóttir var fyrst í kvennaflokki á tímanum 01:53:55, en hún var með nokkuð forskot á Önnu Kristínu Pétursdóttur sem kom önnur og Hrefnu Sigurbjörgu Jóhannsdóttur sem var þriðja.
Leiðin er samtals um 60 kílómetrar með um 600 metra heildarhækkun. Hún er ein af fjórum greinum sem klára þarf í fjölþrautinni Landvættir.
Ljósmyndari mbl.is tók nokkrar myndir af keppnisfólkinu á fyrri hluta leiðarinnar í gær.