Þrátt fyrir talningu Isavia og Ferðamálastofu síðasta fimmtudag sem leiddi það í ljós að um fjórðungs fækkun var á ferðamönnum í maí á milli ára, virðast fyrirtæki í ferðaþjónustu enn sem komið er, ekki finna fyrir því.
Brottfarir erlendra farþega frá Íslandi um Keflavíkurflugvöll voru um 126 þúsund í maí eða um 39 þúsund færri en í sama mánuði í fyrra, samkvæmt talningu Ferðamálastofu og Isavia frá því í síðustu viku. Nemur fækkun milli ára því 23,6% eða næstum fjórðungi.
Í samtali við mbl.is sögðust rekstrarstjórar Jökulsárlóns, Möðrudals, Jarðbaðanna á Mývatni og Special tours hvalaskoðunar, ekki hafa fundið fyrir umtalsverðri, ef nokkurri, fækkun ferðamanna í maí. Þó skal bent á það að hlutfall fækkunar ferðamanna er mishátt á milli fyrirtækja og landshluta.
„Miðað við maí er salan hjá okkur að ganga mjög vel, það er smá fækkun miðað við 2018 en miðað við 2017 er aukning. En það er ekki mikill munur í rauninni. Þetta er að byrja bara rosa svipað og frá því í fyrra, það munar eiginlega engu. Það er aðeins minni sala á veitingum reyndar, ég hugsa alveg 10-15%,“ segir Ágúst Elvarsson, rekstrarstjóri Jökulsárlóns ehf.
Ágúst segir fyrirfram bókanir í bátsferðir líta mjög svipað út og síðustu ár.
„Ennþá eru svipað margir að bóka hjá okkur. Eins og þetta lítur út núna allavega er þetta rosa svipað og síðustu ár. Það gæti alveg orðið einhver fækkun en hún er samt bara lítil. Ef það væri 10% fækkun frá því í fyrra er það samt meira en fyrir tveimur árum. Þannig að tala um eitthvað hrun í greininni hjá okkur allavega er bara kjaftæði. Ég er bara þokkalega bjartsýnn fyrir sumarið en svo er spurning með veturinn, það er kannski annað mál.“
Þá segir Ágúst mikilvægt að hafa í huga að ákveðnir staðir á landinu eru komnir að þolmörkum hvað varðar fjölda ferðamanna og að dreifa þurfi ferðamönnum betur um landið fyrir náttúrunnar sakir.
„Það að tala um eitthvað hrun er bara smá galið. Þó það sé ekki alltaf 10% aukning á farþegum þá get ég ekki sagt að það sé eitthvað hrun ef það er bara svipaður fjöldi eða jafnvel aðeins minni. En við erum náttúrulega búin að vera hérna í 30 ár og löngu komin á kortið þannig að þetta er frekar stabílt hjá okkur. Það getur líka ekkert verið endalaus aukning. Yfir háanna tímann gætum við ekki tekið við mikið fleirum.
„Það gæti bara byrjað að koma niður á gæðum vörunnar og fyrir suma er þetta kannski komið að þolmörkum þar. Suðurlandið getur ekki tekið við mikið fleiri bílum á þjóðveginn og svo framvegis en svo vantar kannski ferðamenn fyrir norðan. Það þarf að dreifa fólki betur um landið.“
Guðmundur Þór Birgisson, framkvæmdarstjóri Jarðbaðanna við Mývatn segist ekki heldur hafa fundið fyrir mikilli fækkun ferðamanna það sem af er sumars.
„Það eru kannski aðeins færri en annars er þetta hjá okkur bara eins og undanfarin ár. Það er mjög mikið bókað fyrirfram, meira ef eitthvað er. Við erum að sjá fleiri bókanir fyrir sumarið en verið hefur. Það verður örugglega einhver samdráttur næsta vetur en hann lítur ágætlega út,“ segir Guðmundur.
Þá tekur Vilhjálmur Vernharðsson, eigandi Fjalladýrðar í Möðrudal á fjöllum, í svipaðan streng.
„Við finnum ekkert. Það er alveg það sama og hefur verið undanfarin ár. Það verður alveg fullt í sumar, það er mjög gott að gera.“
Hilmar Stefánsson, framkvæmdarstjóri Special tours hvalaskoðunar, segir sumarið fara mjög svipað af stað og síðastliðin ár, en hann sjái að markaðurinn hafi minnkað.
„Við erum að sjá eilitla breytingu, en ekki í maí, þá vorum við bara á sama reiki og í fyrra. Það var svona heldur minna í apríl þrátt fyrir að páskarnir væru þá en svo veit maður ekki alveg hvað gerist í framhaldinu. Við sjáum alveg að markaðurinn er aðeins minni.
„En þetta fer mjög áþekkt á stað, kannski heldur rólegra. Hjá okkur er bókað svipað mikið fyrirfram og áður og við erum sátt við það. Aftur á móti er stór hluti okkar rekstrar fólk sem bókar með skemmri fyrirvara og það vitum við ekki hvernig þróast, það eru þessi áhrif sem við eigum eftir að sjá hvernig spilist út.“